xN2014logono122netBrotið á starfsmanni bæjarins 05.03.2014

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Seltjarnarnesbæ til að greiða fyrrum starfskonu 2,5 milljón króna í bætur sökum þess að starf hennar sem deildarstjóri launadeildar sveitarfélagsins var lagt niður. Einnig skal bærinn greiða konunni hálfa milljón króna í málskostnað.

Starf konunnar var lagt niður 30. september 2011 og því haldið fram að það hafi verið í hagræðingarskyni. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að þrátt fyrir staðhæfingar um viðamiklar endurskipulagningu og breytingar á stjórnkerfi sínu hafi bæjarfélagið engin gögn lagt fram um vinnu eða úttektir að baki þeim stjórnkerfisbreytingum.

Þá segir að þegar grípa þurfi til aðgerða eins og niðurlagningu starfa verði forstöðumaður að afmarka þau störf sem slíkar aðgerðir geta beinst gegn og velja úr þá stöðu sem telja verður að stofnunin geti helst verið án. Slíku vali eru takmörk sett af réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og verður valið að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum sem taka mið af þeim opinberu hagsmunum sem hin opinbera stofnun vinnur að.

Dómurinn segir að Seltjarnarnesbæjar hafi ekki lagt fram nein gögn eða varpað með öðrum hætti ljósi á vinnu að baki hinum svonefndu stjórnkerfisbreytingum og því með hvaða hætti mat hafi verið lagt á nauðsyn þess að leggja niður starf konunnar en ekki annars starfsmanns. Með því sé það niðurstaða dómsins að ekki hafi réttilega verið staðið að því af hálfu bæjarfélagsins að leggja niður starfið.

Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar mótmæltu þessum gjörningi á sínum tíma og átöldu vinnubrögð bæjarstjóra m.a. í bókun á fundi bæjarstjórnar 26. október 2011 og kölluðu eftir endurmati á því hvernig staðið er að starfsmannamálum hjá Seltjarnarnesbæ.

Bókun bæjarfulltrúanna var eftirfarandi:


„Við teljum þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við uppsögn deildarstjóra launadeildar þann 30. september 2011 ámælisverð og þvert á starfsmannastefnu bæjarins. Starfsmannastefnan leggur bæjarstjórn og stjórnendum bæjarins ríkar skyldur á herðar. Skyldur sem leggja grunn að festu í starfsmannahaldi og velferð starfsmanna og ber að virða og uppfylla.

Starfsfólk bæjarins, þekking þess, færni og reynsla er sá mannauður sem starfsemi sveitarfélagsins og gæði þjónustu við íbúa byggist á. Þann auð ber að rækta og ávaxta eftir föngum. Virðing og tillitssemi gagnvart starfsfólki, hvort heldur í starfi eða við starfslok, eru lykilforsendur jákvæðs starfsanda og samheldni á vinnustað. Uppsögn og missir starfs sem sinnt hefur verið af trúmennsku, jafnvel í áratugi, er sársaukafull. Starfsmissir er alvörumál sem taka ber á af nærgætni.

Breytingar á starfsmannahaldi, endurskoðun á verksviði og ábyrgð í starfi kunna að vera nauðsynlegar til þess að Seltjarnarnesbær geti rækt skyldur sínar á sem skilvirkastan og hagkvæmastan hátt. Illa grundaðar ákvarðanir og óvönduð vinnubrögð í starfsmannamálum grafa hins vegar undan starfsánægju, koma niður á afköstum og starfsgæðum og ala á ótta og áhyggjum starfsfólks.

Að gefnu tilefni teljum við að endurmeta þurfi hvernig staðið er að starfsmannamálum hjá Seltjarnarnesbæ.“

Árni Einarsson bæjarfulltrúi Neslista

Margrét Lind Ólafsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar
 

Til baka...