xN2014logono122netNeslistinn hefur lagt áherslu á ábyrga og málefnalega þátttöku við stjórn bæjarins 30.04.2014

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar var tekinn til síðari umræðu og afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar í dag. Rekstrarniðurstaða ársins er góð og verulega betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Það skýrist einkum af hærra framlagi úr Jöfnunarsjóði en gert var ráð fyrir í áætlun, svo og betri innheimtu eldri útsvara. En einnig urðu rekstrargjöld nokkru lægri en áætlað var. Því hefur reynst mögulegt að minnka skuldir. Sé litið til rekstrarniðurstöðu einstakra málaflokka sést að almennt hefur gengið vel að halda fjárhagsáætlun.

Árni Einarsson bæjarfulltrúi Neslistans segir í bókun sem hann lagði fram á fundinum að mikilvægt væri að ganga ekki svo langt í hagræðingu eða þrengja að þjónustu, s.s. skóla,- félags- og æskulýðsmálum, og viðhaldi fasteigna og fresta nauðsynlegum nýframkvæmdum það skerði þjónustu og þar með lífsgæði íbúa. Hann benti á að núverandi bæjarstjórn hefði tekið við bæjarsjóði í hallarekstri og bankahrunið og fjármálaerfiðleikar hafi leikið fjölskyldur, fyrirtæki, ríkissjóð og sveitarfélög grátt. Sveitarstjórnarfólki hafi verið sá vandi á höndum að mæta samdrætti í tekjum með hagræðingu og niðurskurði, en án þess að skerða úr hófi þjónustu við íbúana; fresta óhóflega ýmsum mikilvægum framkvæmdum og viðhaldsverkefnum; hækka útsvar, fasteignagjöld og þjónustugjöld eða safna skuldum. Ársreikningar sveitarfélaga sem birtir hafa verið að undanförnu sýni almennt þá jákvæða niðurstöðu að hagur sveitarfélaga fari batnandi.

Árni sagði Neslistinn hafa á kjörtímabilinu lagt áherslu á ábyrga og málefnalega þátttöku við stjórn bæjarins og lagt sig fram um að skapa forsendur fyrir samstarfi og samstöðu við gerð fjárhagsáætlana og rekstur bæjarins. Sú jákvæða nýbreytni hafi verið tekin upp á kjörtímabilinu að bæjarfulltrúar kæmu allir að vinnslu og gerð fjárhagsáætlana Seltjarnarnesbæjar. Þetta væri vinnulag sem hann teldi til fyrirmyndar og eftirbreytni og vera jákvæða tilraun til þess að komast upp úr gamaldags hjólförum í samskiptum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn.

Sjá bókunina í heild hér.

Til baka...