xN2014logono122net 

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013

 

Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 voru teknir til seinni umræðu og afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 30. apríl 2014. Reikningurinn og ársreikningar stofnana bæjarins voru samþykktir samhljóða. Árni Einarsson bæjarfulltrúi Neslista lét bóka eftirfarandi á fundinum:

,,Niðurstaða ársreiknings Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2013 er jákvæð og umtalsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, sem einkum skýrist af hærra framlagi úr Jöfnunarsjóði en gert var ráð fyrir í áætlun, svo og betri innheimtu eldri útsvara. En einnig urðu rekstrargjöld nokkru lægri en áætlað var. Því hefur reynst mögulegt að minnka skuldir. Sé litið til rekstrarniðurstöðu einstakra málaflokka sést að almennt hefur gengið vel að halda fjárhagsáætlun. Það tekst einungis með aga og ábyrgð. Þessu ber að fagna.

Þrátt fyrir þetta er engu síður mikilvægt að ávallt sé tryggt að hvorki sé gengið of langt í hagræðingu eða þrengt um of að þjónustu, s.s. skóla,- félags- og æskulýðsmálum, né viðhaldi fasteigna og nauðsynlegum nýframkvæmdum skotið svo á frest að það skerði þjónustu og þar með lífsgæði íbúa. Því miður er ekki unnið eftir langtíma viðhalds- og framkvæmdaáætlun sem myndi auðvelda yfirsýn og um leið styrkja framtíðarsýn í uppbyggingu bæjarins sem íbúarnir gætu þá komið að og mótað.

Núverandi bæjarstjórn tók við bæjarsjóði í hallarekstri. Bankahrunið og fjármálaerfiðleikar léku fjölskyldur, fyrirtæki, ríkissjóð og sveitarfélög grátt. Atvinnumissir og tekjuskerðing varð hlutskipti margra. Sveitarstjórnarfólki var sá vandi á höndum að mæta samdrætti í tekjum með hagræðingu og niðurskurði, en án þess að skerða úr hófi þjónustu við íbúana; fresta óhóflega ýmsum mikilvægum framkvæmdum og viðhaldsverkefnum; hækka útsvar, fasteignagjöld og þjónustugjöld eða safna skuldum. Ársreikningar sveitarfélaga sem birtir hafa verið að undanförnu sýna almennt þá jákvæða niðurstöðu að hagur sveitarfélaga fer batnandi.

Neslistinn hefur á kjörtímabilinu lagt áherslu á ábyrga og málefnalega þátttöku við stjórn bæjarins og lagt sig fram um að skapa forsendur fyrir samstarfi og samstöðu við gerð fjárhagsáætlana og rekstur bæjarins. Sú jákvæða nýbreytni var tekin upp á kjörtímabilinu að bæjarfulltrúar kæmu allir að vinnslu og gerð fjárhagsáætlana Seltjarnarnesbæjar. Þetta er vinnulag sem ég tel til fyrirmyndar og eftirbreytni og er jákvæð tilraun til þess að komast upp úr gamaldags hjólförum í samskiptum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn.

Neslistinn hefur lagt áherslu á leið félagshyggju og jöfnuðar út úr vandanum sem bankahrunið leiddi af sér og minnir á að skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín og misskipting elur enn frekar á vandanum, sundrung og vantraust í þjóðfélaginu. Því ber að fagna að á kjörtímabilinu hefur fjárhagsaðstoð hækkað og leitast hefur verið við að koma til móts við barnafjölskyldur, m.a. með því að hækka tómstundastyrki og leikskólagjöld hafa ekki hækkað á kjörtímabilinu. Þá hafa verið teknar upp sérstakar húsaleigubætur sem hafa að markmiði að létta undir með þeim fjölskyldum sem standa höllustum fæti. Oftar en ekki eru það fjölskyldur ungra barna.

Seltjarnarnes býr að því að útsvarstekjur á hvern íbúa eru með því sem hæst gerist í landinu án þess að heimild til útsvars sé fullnýtt. Það hefur auðveldað stjórnendum sveitarfélagsins að ná jákvæðri rekstrarniðurstöðu síðustu ár og á að gera okkur mögulegt að halda úti háu þjónustustigi og góðu og fjölbreyttu samfélagi á Nesinu.”

Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista