xN2014logono122netUm Bæjarmálafélagið

Bæjarmálafélag Seltjarnarness var stofnað 23. apríl 1990. Félagið er fyrsta bæjarmálafélag í sveitarfélögum landsins. Síðan hefur félagshyggjufólk víða um land fylgt fordæmi þess. Félagar í Bæjarmálafélagi Seltjarnarness eru einstaklingar sem vilja efla faglegt starf að bæjarmálum. Rétt til aðildar hafa íbúar 16 ára og eldri búsettir á Seltjarnarnesi, sem samþykkja lög og stefnu félagsins.

Bæjarmálafélagið býður fram Neslistann í sveitarstjórnarkosningum samkvæmt ákvörðun félagsfundar sem einnig tekur ákvörðun um prófkjör. Tillaga að framboðslista er tekin til afgreiðslu á almennum félagsfundi en ekki í fámennu fulltrúaráði. Öllum íbúum Seltjarnarness er heimilt að bjóða sig fram samþykki þeir stefnu félagsins. Í opnu prófkjöri hafa allir íbúar á kjörskrá rétt til að greiða atkvæði.

Með þessu er leitast við að ná víðtæku samstarfi og virkja reynslu og þekkingu einstaklinga, stjórnmálaflokka og félagasamtaka sem styðja félagshyggju.

Auðvelt hefur reynst að marka stefnu í málefnum bæjarins með bætt mannlíf og umhverfi að leiðarljósi og margir fagnað því að geta lagt bæjarmálum lið án þess að þurfa að vera félagsbundnir í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum.

Haldnir eru félagsfundir um málefni félagsins og bæjarmál en einnig bæjarmálafundir opnir öllum.

Fundir Neslistans fyrir bæjarstjórnarfundi eru opnir félagsmönnum. Þar eru mál undirbúin, lögð drög að tillöguflutningi bæjarstjórnarfulltrúa og málatilbúnaði í nefndum. í fundargögnum bæjarstjórnar er að finna tillögur, ábendingar og bókanir bæjarfulltrúa.