xN2014logono122netPrófkjör Bæjarmálafélags Seltjarnarness og pólitíkin framundan 23.01.2010

Stjórnmálaflokkar fara ýmsar leiðir til þess að velja fulltrúa á framboðslista í sveitarstjórnarkosningum. Sumir velja þá leið að stilla upp listum án mikillar aðkomu flokksfélaga; aðrir bjóða flokksfólki að velja í efstu sæti í forvali eða prófkjöri. Bæjarmálafélag Seltjarnarness hefur þann háttinn á að þessu sinni að efna til opins prófkjörs laugardaginn 20. febrúar nk. við val á efstu fulltrúum Neslista.

Í samþykktum félagsins segir að í opnu prófkjöri hafi allir félagsmenn rétt til að greiða atkvæði auk íbúa á kjörskrá. Með þessu er undirstrikað að Bæjarmálafélag Seltjarnarness er opinn og aðgengilegur vettvangur fyrir þá sem vilja leggja bæjarmálum lið með félagshyggju og lýðræði að leiðarljósi. Félagið er því t.d. ákjósanlegur vettvangur fyrir þá sem ekki vilja afmarka sig við hefðbundna flokka sem starfa á landsvísu.

Ég hef ákveðið að taka þátt í prófkjöri Bæjarmálafélagsins og sækjast eftir því að leiða Neslistann í kosningunum í vor. Hvort það verður ræðst í prófkjörinu þann 20. febrúar.

Erfið verkefni og nýir tímar

Íslenskt samfélag tekst nú á við erfiðari viðfangsefni en verið hefur um langt skeið. Bankahrun og fjármálaerfiðleikar leika margar fjölskyldur og fyrirtæki grátt, s.s. með atvinnumissi, tekjuskerðingu og gjaldþrotum, og við blasir að samdrætti í tekjum sveitarfélaga og ríkis verður að mæta með miklu aðhaldi í rekstri, hækkun þjónustugjalda, niðurskurði, og þar með skerðingu á þjónustu, og hækkun skatta. Pólitísku átakalínurnar á komandi misserum munu fyrst og fremst snúast um því hvernig þessum vanda verður mætt, þ.e. hvaða leiðir verða valdar.

Þurfum að dreifa byrðunum og standa saman

Í viðfangsefnunum framundan reynir á að jafna byrðarnar, að þeir sem betur standa létti undir með hinum sem standa höllum fæti. Lendi göngufólk í vanda á fjöllum þykir sjálfsagt að skipta upp byrðunum ef þurfa þykir til þess að allir komist heilir á leiðarenda; þeir sterkari létta hinum veikari gönguna. Þannig þurfum við að hugsa núna. Leið félagshyggju og jafnaðar er því eina leiðin til þess að við komum sæmilega út úr vandanum sem við er að eiga. Skeytingarleysi og misskipting elur enn frekar á sundrung og vantrausti í þjóðfélaginu. Við þurfum síst á slíku að halda nú.

Ekki verður komist hjá ýmsum sársaukafullum og óvinsælum aðgerðum hjá sveitarfélögunum sem reyna munu á þolrif sveitarstjórnarfólks. Það  kallar á samstarf og samstöðu allra sem koma að málum. Að deila og drottna í krafti meirihlutavalds er ekki farsæl leið til að leysa vandann sem við er að eiga. Að berja sitt í gegn án samráðs er ekki vænlegt til árangurs þegar gagnkvæmur skilningur og samstaða eru nauðsynleg. Þeir stjórnmálamenn sem vinna í anda sátta og samstöðu eru að svara kalli fólks um nýja tíma í stjórnmálum, kalli um einingu í stað átaka þrátt fyrir ólíkar skoðanir, að gætt sé almannahagsmuna í stað sérhagsmuna, að unnið sé fyrir opnum tjöldum í stað baktjaldamakks. Þetta eru stjórnmálamennirnir sem við þurfum á að halda.

Árni Einarsson, varabæjarfulltrúi Neslista.

Greinin var birt í Nesfréttum í janúar 2010

Til baka...