xN2014logono122netNý framvarðasveit og baráttan um Nesið 18.02.2010

Þegar yfirstandandi kjörtímabil er senn á enda verður háværari sú krafa bæjarbúa að stjórnsýsla verði markvissari, dregið verði úr yfirbyggingu hennar ásamt því að bæjarbúar fái að koma að ákvarðanatöku í stærri málum. Það er löngu tímabært að farið verði yfir hlutverk fastanefnda bæjarins ásamt því að bæjarráði verði komið á fót. Hagsmunir bæjarins eru betur tryggðir með fækkun framkvæmdastjóra og sameiningu sviða ásamt því að hverfa frá pólitískum ráðningum í bæjarstjórastól.

Hlúa þarf að barnafjölskyldum

[Mynd 1]Brýnasta verkefni þeirra sem koma að stjórn bæjarins að loknum kosningum er að hlúa vel að barnafjölskyldum og búa þannig um að Seltjarnarnes verði fýsilegur kostur fyrir ungt fólk með börn. Neslistinn hefur barist fyrir þeirri hugsjón að laða barnafjölskyldur til búsetu innan bæjarmarkanna í ljósi fækkunar barna á leik- og grunnskólaaldri á undanförnum misserum. Í síðustu kosningum töldu sjálfstæðismenn þennan málflutning firru en nú kveður við annan tón. Nú ber svo við að jafnvel bæjarstjóri tekur undir málflutning fulltrúa Neslistans ef marka má skrif hans. Það er hins vegar hvergi nærri nóg að taka undir mál það þarf að veita þeim brautargengi.

Sóknarfæri á erfiðum tímum

Ljóst er að næstu misseri eiga eftir að reynast erfið og tekjusamdráttur bæjarins staðreynd. Hin fróma styrka fjármálastjórn virðist á undanhaldi og megináhersla næstu missera verður á niðurskurð og hagræðingu í rekstri. Það skiptir þó miklu máli hvernig staðið er að slíkum aðgerðum. Mikilvægt er að vandað sé til verka, forgangsröðun skýr og kalla þarf eftir viðbrögðum og áliti hagsmunaaðila áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Það þarf víðtækari samstöðu en fámennan stefnumótunarfund meirihlutans undir því yfirskini að um samráðsfund íbúa sé að ræða.

Hinn 20. febrúar fer fram prófkjör Bæjarmálafélags Seltjarnarness vegna vals frambjóðenda á Neslista. Ég gef kost á mér í 1.-2. sæti og óska eftir stuðningi Seltirninga.

Kristján Þorvaldsson er fulltrúi Neslista í skólanefnd og frambjóðandi í 1.-2. sæti í prófkjöri Bæjarmálafélags Seltjarnarness.

Greinin var birt í Morgunblaðinu 18. febrúar 2010.
Lengri útgáfa greinar var birt í febrúarblaði Nesfrétta.

Til baka...