xN2014logono122netSeltirningum býðst opið prófkjör Neslistans 19.02.2010

Laugardaginn 20. febrúar fer fram prófkjör Neslistans, framboðs Bæjarmálafélags Seltjarnarness í komandi Sveitarstjórnarkosningum 29. maí. Þá gefst íbúum Seltjarnarness tækifæri til að taka þátt í opnu prófkjöri og velja á lýðræðislegan hátt fulltrúa Neslistans, þar sem tvö efstu sætin eru bindandi.

Seltirningar sem aðhyllast grunnhugmyndir félagshyggju ættu ekki að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara.Tækifæri til að hafa áhrif á vinnubrögð og áherslur stjórnsýslunnar hér í bæ á komandi kjörtímabili. Neslistinn býður nú fram í sjötta sinn en Bæjarmálafélagið hefur staðið að framboði listanum frá stofnun þess árið 1990.

Brynjúlfur Halldórsson Ég býð mig fram í 2. - 4. sæti Neslistans. Ég er fæddur og uppalinn í Borgarnesi. Ég lærði matreiðslu á árunum 1992-1996 og lauk síðan meistaraprófi í þeirri iðn árið 2006. Í dag starfa ég hjá Orkuveitu Reykjavíkur en hef áður starfað á virtum veitingahúsum bæði hér á landi sem og erlendis. Ég og eiginkona mín Vigdís Hallgrímsdóttir fluttum á Nesið árið 2003 og dætur okkar tvær hafa lokið leikskólagöngu sinni og una sér nú vel í Mýrarhúsaskóla. Ég kann mjög vel við samfélagið hér á Nesinu, smæðina og auðsótt návígi við náttúruna og árstíðabundnar birtingamyndir hennar.

Allt hefur sinn tíma í þessu lífi, nú er tími breytinga. Brýn þörf er á að forgangsraða rétt á næstu misserum. Málaflokkar Sveitarfélagsins þurfa faglega og málefnalega meðferð á tímum þrenginga og aðhalds. Eitt eru tímabundnar auknar álögur, annað er að tryggja óskerta grunnþjónustu. Gæta ber jafnræðis og jafnréttis. Skýr krafa er uppi um virkt íbúalýðræði og opna stjórnsýslu, ekki síst í skipulagsmálum. Á líðandi kjörtímabili hef ég verið aðalmaður Neslistans í Umhverfisnefnd sem og varabæjarfulltrúi. Einnig hef ég gegnt formennsku Bæjarmálafélagsins síðastliðin tvö ár.

Ósk mín er sú að á Seltjarnarnesi ríki búsetuskilyrði sem höfða til allra aldurshópa og geri Nesið að spennandi kost til framtíðar. Þátttaka þín í þessu prófkjöri skiptir máli, góð kjörsókn á laugardaginn styrkir framgöngu bæjarfulltrúa Neslistans.

Brynjúlfur Halldórsson, formaður Bæjarmálafélags Seltjarnarness.

Til baka...