xN2014logono122netSjálfstæðismenn segja reksturinn hafa gengið vel þrátt fyrir mikinn rekstrarhalla... 14.12.2009

 Á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 11. nóvember 2009 var lögð fram tillaga að endurskoðaðri fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2009. Endurskoðuð fjárhagsáætlun ársins 2009 var samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks en 2 fulltrúar Neslistans sátu hjá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks segja í bókun með tillögunni að rekstur bæjarins og fjármálastjórn hafi gengið vel það sem af er þessu ári þrátt fyrir mikinn rekstrarhalla á árinu. Fulltrúar Neslistans, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir, lögðu fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu tillögunnar.

Fulltrúar Neslista í bæjarstjórn hafa oft í síðustu árum gert athugasemdir við lausatök í fjármálastjórn bæjarins með bókunum. Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar hefur í mörg ár verið þannig að rekstur málaflokka hefur útheimt tæplega 90% af tekjum bæjarins. Það er hátt hlutfall og skilgreind hættumörk félagsmálaráðuneytisins eru 85%. Það vekur sérstaka athygli að laun hafa verið gróflega vanáætluð á mörgum sviðum í nokkur ár og hafa fulltrúar minnihlutans oft bent á það í bókunum. Nú er staðan hins vegar grafalvarleg. Í endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2009 kemur í ljós viðbótarútgjöld eru tæpar 480 M króna eða um 25% . Það hefur oft  komið fyrir í fjárhagsáætlunum bæjarins bæði að liðir séu vanáætlaðir og framkvæmdir á vegum bæjarins hafa oft farið langt fram úr áætlun. Þetta hefur allaf bjargast þar sem skatttekjur hafa stöðugt aukist. Nú eru tekjur hins vegar að lækka og kostnaður að hækka.

Það liggur fyrir að þessum viðbótarútgjöldum 2009  verður mætt með því að ganga á peningalegar eignir bæjarsjóðs. Þeir sjóðir verða ekki stórir eftir þetta ár og nú reynir á að Sjálfstæðisflokkurinn geti tekið á málum í þessari erfiðu stöðu. Meirihluti sjálfstæðismanna fer jafnan hástemmdum orðum um afrek sín í fjármálastjórn bæjarins og vitnar þá jafnan máli sínu til stuðnings til greinargerðar „óháðra aðila“ sem eru aðkeyptir álitsgjafar meirihlutans. Það er auðvelt að stjórna þegar skatttekjur eru alltaf að aukast en nú reynir raunverulega á.  Fulltrúar Neslistans lýstu sig fúsa til aðgerða í vor þegar lá fyrir í hvað stefndi en lítið hefur verið gert. Við sitjum því hjá við þessa afgreiðslu.

Til baka...