xN2014logono122netSveit í borg 15.02.2009

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum hér á landi í ótrúlegum veðraföllum  undanfarin misseri hve návígið við náttúruna og krafta hennar er í raun ríkjandi þáttur í okkar daglega lífi.  Já það er eins og okkur Íslendingum sé í blóð borið að gá til veðurs, dásama fjallasýn og líta til sjávar.

Grótta er einstök perla í umhverfi okkar hér á Seltjarnarnesi og er hún réttilega friðlýst.

Í Gróttu er nú starfrækt fræðasetur með miklum ágætum. Ósnortna  paradís má finna við strendur og fjörur, en þó nýtur Suðurströndin sín sérstaklega vel til útivistar.

Þó að ekki renni hér á nesinu bæjarlækur finnast hér  þrjár dýrmætar tjarnir; Bakkatjörn, Búðatjörn og Daltjörn en Bakkatjörnin og umhverfi hennar var friðlýst árið 2000.

Seltjarnarnesfjörur og Suðurnes hafa verið á Náttúruminjaskrá síðan 1981 ásamt Valhúsahæð.

Fólkvangar eru friðlýst svæði með fjölbreyttri náttúru og henta vel til útiveru.  Slík friðlýsing er að  frumkvæði og tillögu sveitarfélaga  til umhverfisráðherra.

Landsvæðið vestur af Ráðagerði  milli Snoppu og Bakkatjarnar ásamt Suðurnesi  er útivistarsvæði okkar Seltirninga og er því vel til þess fallið að verða gert að fólkvangi.

Markmið í þessu samhengi er að standa vörð um dýralíf, gróður, jarðmyndanir og votlendi á svæðinu.

Gott aðgengi og nálægðin við þéttbýli gerir þetta svæði ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu fyrir unga sem aldna. Fjölskrúðugt fuglalíf má glögglega sjá hér á vestursvæðum Seltjarnarness yfir sumartímann og alltaf er ljúft að sjá vorboðann koma hér til að para sig og gera tilraun til að viðhalda sér með varpi sínu.

Náttúruvernd er varðveisla lífsgæða. Með friðlýsingu er náttúra, sem mikilvægt er að varðveita vegna landslags eða lífríkis, tekin frá og henni hlíft til framtíðar.

Með friðun tryggjum við rétt okkar og komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru og stuðlum þannig að sjálfbæru samfélagi. Ósnortin náttúra er takmörkuð auðlind, auðlind sem á heimsvísu fer þverrandi.

 
Til baka...