xN2014logono122netSkipulagsmál á Seltjarnarnesi hafa einkennst af átökum 05.05.2010

Neslistinn stóð fyrir opnum fundi um skipulags- og umhverfismál þriðjudaginn 4. maí síðastliðinn. Þar var rætt um þróun og stöðu í þessum málaflokki á Seltjarnarnesi. Við blasir að framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru eða komnar í gang, eins og Lækningaminjasafnið, munu stöðvast um sinn. Búið er að tyrfa Iðunnarlóðina, ekkert gengur á Bygggarðssvæðinu, m.a. vegna málareksturs Þyrpingar sem telur sig hafa keypt köttinn í sekknum og fá ekki að byggja jafn mikið á svæðinu og þeir töldu sig mega. Þá er ljóst að hugmyndin að baki bygginganna á Hrólfsskálamel er fallin og nauðsynlegt að endurmeta hana frá grunni með þarfir Seltirninga og íbúaþróun að leiðarljósi. Það eru engar horfur á að markaður skapist í náinni framtíð fyrir íbúðir á verði íbúðanna á Melnum. M.a. var rætt um möguleika á einhvers konar makaskiptum á hluta bæjarins í Lýsislóðinni og hluta Hrólfsskálamelarins. Með því styrkti bærinn stöðu sína á ráðstöfun lóðarinnar eða, eins og einn fundarmanna orðaði það:,,Við erum þá komin á byrjunarreit og getum farið að vinda ofan af geðveikinni.“ Nokkuð var rætt um að bílastæðamál við Íþróttamiðstöðina væru í ólestri.

Fram kom stuðningur við að halda áfram undirbúningi að byggingu hjúkrunar- og þjónustuheimili fyrir aldraða við Valhúsahæð. A.m.k. þrjú sveitarfélög hafa þegar gert samninga við ríkið um fjármögnun hjúkrunarheimila og býðst Seltjarnarnesi hið sama. Á næstu dögum eða vikum verður tekin ákvörðun um það af hálfu bæjarins.

Af vettvangi umhverfismálanna var nokkuð rætt um að enn væri skólp af Seltjarnarnesi losað í Skerjafjörð, eftir nærri áratugar hringlandahátt meirihlutans með málið. Lausn á því virðist nú í sjónmáli og mikilvægt að framkvæmdir hefjist sem fyrst, svo að málin komist í viðunandi horf.

Skipulagsmál á Seltjarnarnesi hafa mótast af átökum á undanförnum árum og meirihluta Sjálfstæðismanna gengið illa að vinna þau mál í sátt við íbúana. Það var því tekið undir þau sjónarmið Neslistans að grundvallarreglan í skipulagsmálum þyrfti að vera sú að virkja íbúa til þátttöku í skipulagsvinnu á öllum stigum hennar þannig að sem mest sátt skapist. Það verði að vera ljóst að ákvarðanir og framkvæmdir séu í þágu íbúa en ekki verktaka. Til þess að skapa meiri sátt þurfi að vera fyrir hendi heildarsýn í skipulags- og umhverfismálum og ljúka þurfi sem allra fyrst vinnu við að deiliskipuleggja þau svæði sem eftir eru.

Til baka...