xN2014logono122netBarnafjölskyldur þola ekki hækkun þjónustugjalda 07.05.2010

 

Í umræðum um skólamál á málefnafundi Neslistans í gær var var m.a. rætt um leikskólamál, einkum leikskólagjöld. Fundarmenn voru sammála um að sveitarfélögin þyrftu að fara varlega í hækkun leikskólagjalda við núverandi efnahagsaðstæður. Barnafjölskyldur þyldu illa hækkun þeirra til viðbótar annarri hækkun framfærslukostnaðar. Rætt var um afturköllun fyrirhugaðrar hækkunar leikskólagjalda á Seltjarnarnesi í vor og hvort hún lægi enn í pípunum og biði fram yfir kosningar. Sjálfstæðiflokkurinn héldi væntanlega áfram fast við trúarsetningu sína um útsvarið sem tekjuöflun fyrir bæjarsjóð en léti frekar til skarar skríða í þjónustugjöldum til þess að laga rekstrarhalla bæjarins. Bent var á að leikskólagjöld væru ekki einungis velferðarmál með hag barnafjölskyldna í huga, heldur blákalt verkfæri til þess að laða ungt fólk til búsetu á Nesinu. Hækkun slíkra gjalda fældi fólk frá.

Í skóla- og uppeldisstefnu Neslistans er m.a. lögð áhersla á menntun til sjálfbærni með siðferði, jafnrétti og lýðheilsu að leiðarljósi og mikilvægi þess að tryggja að skólaráð í nýjum grunnskólalögum verði í reynd virkur samráðsvettvangur foreldra, kennara, annarra fagaðila, skólastjórnenda, skólanefndar og alls grenndarsamfélagsins. Einnig er lagt til að fram fari faglegt mat á árangri, skilvirkni og áhrifum sameiningar grunnskólanna sumarið 2004.

Í stefnunni er einnig fjallað um einelti og mikilvægi þess að brugðist verði við einelti sem ofbeldi sem samfélagið þurfi að sameinast um að uppræta og fyrirbyggja. Eineltisáætlun skólanna verði markvissari og stutt við bakið á skólunum með samstarfi og þátttöku alls skólasamfélagsins; nemenda, kennara, foreldra og annarra starfsmanna bæjarins. Stofnað verði til samráðs þessara aðila auk íþróttafélaga, kirkju, æskulýðsfélaga og fleiri til þess að styrkja samfélagslega vitund um mikilvægi forvarna gegn einelti og markvissrar íhlutunar þegar hennar er þörf.

Til baka...