xN2014logono122netFrábært starf í Selinu 08.05.2010

 

Á málefnafundi Neslistans um æskulýðs- og íþróttastarf síðastliðinn fimmtudag var kynnt starfsemi félagsmiðstöðvarinnar Selsins. Ljóst er að starfið þar er með miklum blóma, bæði fjölbreytt og vel nýtt. Frumkvæði og gleði einkennir greinilega starfið. Í umræðum var rætt um mögulega kosti samnýtingar og/eða samreksturs Selsins og félagsheimilisins. Í Selinu væri til staðar kraftur og hugmyndaauðgi sem gæti hleypt nýju lífi í starfsemi félagsheimilisins.

Nýlega var stofnað ungmennaráð á Seltjarnarnesi með það að markmiði að unga fólkið hefði vettvang til þess að móta og koma formlega á framfæri áherslum sínum og hagsmunamálum. Fulltrúar ráðsins mættu á fund bæjarstjórnar í vor og kynntu þar ýmis mál af skörungsskap. Flottir krakkar með hlutina á hreinu. Þetta starf þarf að tryggja svo rödd ungmenna heyrist og sé virt við ákvarðanir sem skipta ungt fólk sérstaklega máli. Miklu skiptir að uppvaxandi kynslóð læri á og þekki leikreglur lýðræðisins á öllum sviðum og ábyrgð og skyldur sem felast því að búa í opnu lýðræðisþjóðfélagi. Ungmennaráðið er frábær vettvangur til þess.

Í æskulýðs- og íþróttastefnu Neslistans er m.a. lögð áhersla á mikilvægi fjölbreytni. Þrátt fyrir frábært starf hjá Gróttu og mikla þátttöku í íþróttastarfinu hafa ekki allir áhuga á íþróttum. Þar getur Selið komið sterkt inn í. Neslistinn vill einnig að starfsemi Selsins verði sérstaklega styrkt til þess að bjóða börnum og unglingum í áhættu upp á félagsstarf og verkefni, meðal annars í samstarfi við skólana, Gróttu og kirkjuna í því skyni að ná til þessara einstaklinga. Í æskulýðs- og íþróttastefnu Neslistans er lögð áhersla á fjölmenningu á vettvangi Selsins og að allir sem standa að æsklýðs- og íþróttastarfi leggi sig fram um að auðvelda nýbúabörnum þátttöku og hvetja þau til félagsstarfs.

Til baka...