xN2014logono122netEinelti er ofbeldi sem þarf að fyrirbyggja 10.05.2010

 

Á málefnafundi Neslistans um skóla- og uppeldismál sem haldinn var 6. maí síðastliðinn var m.a. rætt um einelti og afleiðingar þess. Þetta alvörumál hefur verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu mánuði. Þar hefur komið fram fullorðið fólk sem varð fyrir einelti í bernsku og telur sig aldrei hafa borið þess bætur og nefnir m.a. sem dæmi slæm áhrif á sjálfstraust, jafnvel svo að það leiði til félagsfælni; neikvæð áhrif á námsárangur; einelti hafi ýtt undir kvíða- og þunglyndiseinkenni, jafnvel sjálfsvígshugleiðingar og ýtt undir almenn veikindi.

Það var niðurstaða umræðunnar að bregðast þurfi við einelti sem ofbeldi sem samfélagið þurfi að sameinast um að uppræta og fyrirbyggja. Eineltisáætlun sé vissulega til staðar í skólunum og mikilvægur liður í að sporna gegn og bregðast við einelti. Í eineltisforvörnum skólanna þurfi að leggja áhersla þátttöku alls skólasamfélagsins; nemenda, kennara og foreldra. Hafa ber í huga að einelti er sjaldnast bundið við ákveðinn stað, einkum í litlu samfélagi eins og Seltjarnaranesi. Þess vegna þurfi sem flestir að koma að málum. Á grundvelli umræðunnar á málefnafundinum var ákveðið að leggja til að stofnað verði til samráðs leikskólanna og grunnskólanna auk íþróttafélaga, kirkju, æskulýðsfélaga, foreldrafélaga og fleiri til þess að samræma áherslur og viðbrögð og styrkja samfélagslega vitund um mikilvægi forvarna gegn einelti og markvissrar íhlutunar þegar hennar er þörf.

Til baka...