xN2014logono122net,,Meirihlutinn byggði á góðærissandi" 17.05.2010
 
,,Fjármálin eru ofarlega á baugi," segir Árni Einarsson, oddviti Neslistans í viðtali við Fréttablaðið 17. maí 2010.
 

,,Fjármálin eru ofarlega á baugi," segir Árni Einarsson, oddviti Neslistans. ,,Bæjarsjóður var rekinn með umtalsverðum halla í tvö ár og það þarf að rétta hann af og koma rekstrinum í jafnvægi. Meirihlutinn byggði á þessum góðærissandi." Árni segir bæjarsjóð hafa tapað þrátt fyrir að útsvarstekjur á Seltjarnarnesi séu með því allra hæsta sem gerist á landinu. Enginn áhugi sé á að hækka útsvarið, mæta þurfi stöðunni með hagræðingu án þess þó að hún bitni á velferðarþjónustunni.

Íbúaþróunin á Nesinu veldur Árna áhyggjum. ,,Ef litið er til síðustu tíu ára hefur börnum undir sextán ára fækkað um 23 prósent á meðan þeim hefur fjölgað í sveitarfélögunum í kringum okkur. Á sama tíma hefur fólki, eldra en 67 ára, fjölgað um 40 prósent. Þessi þróun hefur áhrif á innviði samfélagsins, til dæmis skólana og öldrunarmálin."

Árni segir mikilvægt að standa vörð um barnafólkið í bænum, ekki megi þyngja byrðar þess.

,,Svo leggjum við áherslu á íbúalýðræði og breytt vinnulag. Íbúar verða að hafa betri og meiri aðkomu að veigamiklum málum á borð við skipulag og sameiningu skóla. Umhverfismálin eru líka í forgrunni. Hér höfum við frábæra náttúru, strönd og útivistarsvæði og viljum halda því óspilltu sem enn er óspillt."

Til baka...