xN2014logono122netPólitísk endurreisn 23.05.2010
Árni Einarsson

Árni Einarsson, oddviti Neslistans, segir í grein sem birtist í Nesfréttum í maí  að vandi íslensks samfélags nú og stefna undanfarinna ára hafi að stærstum hluta verið hugmyndafræðilegt slys á pólitíska sviðinu sem magnað hafi verið upp af alvarlegum siðferðisbresti og sérgæsku einstaklinga í skjóli samtryggingar auðs og valds.

,,Sveitarstjórnarkosningarnar þann 29. maí næstkomandi fara fram í skugga þessa vanda," segir Árni ,,og almennrar tortryggni, reiði og vantrúar á getu og heilindi stjórnmálamanna. Uppi eru kröfur um siðbót stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, aukið gegnsæi og virkara lýðræði. Það er í höndum allra stjórnmálamanna og flokka, líka á sveitarstjórnarstiginu, að endurvinna þetta traust, hvort sem þeir hafa unnið sér eitthvað til óheilinda eða ekki."

Árni segir ennfremur í greininni: ,,Frambjóðendur Neslista horfa til framtíðar og vilja í verki taka þátt í að byggja upp traust og virðingu í stjórnmálum. Við viljum opin vinnubrögð, gagnkvæma virðingu þeirra sem sinna stjórnmálum og málefnalega umræðu án upphrópana. Viðfangsefni og skylda sveitarstjórnarmanna er að vinna sem best að hagsmunum íbúanna og sveitarfélagsins, ekki flokki sínum eða eigin hag. Neslistinn tekur ekki þátt í metingi um einstaka framkvæmdir eða innihaldslaus loforð. Við leggjum fram almennt verklag og grunngildi og höfnum grunnhugsun þeirrar skefjalausu frjálshyggju, græðgi og sérhyggju sem gengið hefur svo nærri íslensku samfélagi. Neslistinn er einungis fólkið sem hann skipar og er reiðubúið til þess að taka þátt í að móta framtíðina á Seltjarnarnesi. Til þess þurfum við stuðning í kosningunum 29. maí."

Sjá alla greinina

Til baka...