xN2014logono122netNeslistinn - framtíðin er fólk 28.05.2010

Í dag velja Seltirningar bæjarfulltrúa til að starfa í sína þágu næstu fjögur ár. Á Neslistanum er fólk með fjölþættan bakgrunn og reynslu og margir hafa um árabil starfað að bæjarmálum á Seltjarnarnesi og tekið virkan þátt í bæjarlífinu. Við bjóðum fram krafta okkar til góðra verka og þátttöku í að móta framtíðina á Seltjarnarnesi og óskum eftir stuðningi Seltirninga í kosningunum í dag.

Neslistinn vill opinskáa, heiðarlega og málefnalega umfjöllun um málefni bæjarins, að bæjarstjórn hlusti vel á íbúana og hafi þá með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir sem skiptar skoðanir eru um. Til þess þarf opna stjórnsýslu, gegnsæi og samráð við minnihluta í bæjarstjórn, íbúa og hagsmunaaðila. Það þarf stundum ekki meira en að tala saman til þess að hlutirnir gangi átakalítið fyrir sig. Þannig byggjum við upp lýðræði, tryggjum íbúum áhrif og veitum stjórnendum bæjarins nauðsynlegt aðhald og stuðning þegar þess þarf.

Frambjóðendur Neslista horfa til framtíðar og vilja í verki taka þátt í að byggja upp traust og virðingu í stjórnmálum. Við viljum opin vinnubrögð, gagnkvæma virðingu þeirra sem sinna stjórnmálum og málefnalega umræðu án upphrópana. Viðfangsefni og skylda sveitarstjórnarmanna er að vinna sem best að hagsmunum íbúanna og sveitarfélagsins, ekki flokki sínum eða eigin hag. Við viljum að ákvarðanir snúist um fólk en ekki flokka.

Neslistinn tekur ekki þátt í metingi um einstaka framkvæmdir eða innihaldslaus loforð. Við leggjum fram almennt verklag og grunngildi og höfnum grunnhugsun þeirrar skefjalausu frjálshyggju, græðgi og sérhyggju sem gengið hefur svo nærri íslensku samfélagi. Neslistinn er einungis fólkið sem hann skipar og er reiðubúið til þess að taka þátt í að móta framtíðina á Seltjarnarnesi. Til þess þurfum við stuðning í kosningunum 29. maí.

Með bestu kveðju, frambjóðendur Neslistans.

Til baka...