xN2014logono122netNýtt skipurit fyrir yfirstjórn bæjarins 16.09.2010

Á fundi bæjarstjórnar 8. september síðastliðinn samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn Seltjarnarness nýtt og breyttt skipurit fyrir yfirstjórn Seltjarnarness. Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar greiddu atkvæði gegn hinu breytta skipuriti þar sem ekki lægi fyrir mat  á fjárhagslegum ávinningi eða kostnaði af breytingunni. Í bókun Árna og Margrétar Lindar segja þau gögnin með breytingunni á engan hátt nægilega upplýsandi til þess að hægt sé að taka svo veigamikla ákvörðun. Engar tölulegar upplýsingar liggi til grundvallar, svo dæmi sé tekið og rökstuðning skorti á einstaka liðum. Þau segja ennfremur: Þegar kemur að svo áhrifamiklum breytingum er varða bæjarfélagið þarf að skoða málin ofan í kjölinn með hagsmuni bæjarfélagsins að leiðarljósi og hagræðingu í huga. Umræður um þetta nýja skipurit hafa verið af mjög skornum skammti og liggur ekki ljóst fyrir hverju það á að skila. Undirrituð leggja áherslu á að vinna við nýtt skipurit sé unnin á faglegum forsendum og endurspegli stærð og umfang bæjarins. Að vandað sé til slíkrar vinnu svo að ávinningur verði af þessum breytingum. Undirrituð leggja til að stofnað verði vinnuteymi er kemur að vinnu við nýtt skipurit þar sem fulltrúar frá öllum flokkum sem sæti eiga í bæjarstjórn komi að borði og taki þátt í þessari veigamiklu vinnu.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru hins vegar á öðru máli og lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Meirihluti Sjálfstæðismanna vill lýsa ánægju sinni með nýtt skipurit bæjarins. Lykilorðið í nýja skipuritinu er samvinna, breytingin hefur í för með sér meiri skilvirkni og sveigjanleika. Stjórnsýslan verður betur í stakk búin til þess að takast á við ný verkefni sem geta komið skyndilega upp, að öðru leyti er vísað til greinargerðar með breytingum á skipuriti stjórnsýslunnar. Með þessum breytingum er talið ná megi fram umtalsverðri hagræðingu. Breytingarnar hafa það að markmiði að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri og starfsemi bæjarins.“

Þeir nefna hins vegar ekki eitt aðalatriði málsins: Í hverju felst fjárhagslegur ávinningur af hinu breytta skipuriti? Er hann kannski enginn?

Til baka...