xN2014logono122netMinnihlutinn fær áheyrnarfulltrúa 10.09.2010

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti á fundi sínum 18. ágúst 2010, tillögu fulltrúa Neslista og Samfylkingar um að framboðin tvö fái að skipa áheyrnafulltrúa  í  þær nefndir  sem framboðin  eiga ekki aðalfulltrúa í.  Meirihluti Sjálfstæðisflokks samþykkti tillöguna til reynslu, til 30. júní 2011.

Samþykktin felur í sér að neðangreindum fulltrúum Neslista og Samfylkingar er heimilt að sitja nefndarfundi sem áheyrnafulltrúar í tilgreindum nefndum og fá öll gögn er fundina varða:

  • Félagsmálaráð: Halldóra Jóhannesdóttir Sanko (Neslista).
  • Fjárhags- og launanefnd: Árni Einarsson (Neslista).
  • Skipulags- og mannvirkjanefnd: Stefán Bergmann (Samfylkingu).
  • Skólanefnd: Hildigunnur Gunnarsdóttir (Neslista).
  • Stjórn Veitustofnana: Jens Andrésson (Neslista).
  • Íþrótta- og tómstundaráð: Guðmundur Kristjánsson (Samfylkingu)
  • Umhverfisnefnd: Ívar Már Ottason (Samfylkingu).
  • Menningarnefnd: Sonja B. Jónsdóttir (Samfylkingu).

Tillagan sem samþykkt var hljóðar svo:

„Við undirrituð óskum eftir því að Neslisti og Samfylking eigi þess kost að skipa áheyrnafulltrúa í þær fimm manna nefndir sem framboðin eiga ekki aðalfulltrúa í. Hið sama gildi um fjárhags- og launanefnd. Við teljum það fyrirkomulag auka skilvirkni í nefndarstörfum og bæjarstjórnarfundir verði markvissari fyrir vikið og styrkir lýðræðislega skipan fastanefnda bæjarins. Það skal tekið fram að áheyrnafulltrúi mun ekki þiggja nefndarlaun með setu sinni.“
Árni Einarsson, oddviti Neslistans
Margrét Lind Ólafsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi.

Til baka...