xN2014logono122netVangaveltur um umhverfismál 13.12.2010
Brynjúlfur Halldórsson

Um jól og áramót er ljúft að hitta fólkið sitt, vini og fjölskyldu og gleðjast. Eflaust kemur viljinn og eljan í jólastússinu yfir aðventuna til af því að hátíðarnar kljúfa veturinn og lýsa upp skammdegið.   Í öllu þessu umstangi sem hver og einn byggir á sínum hefðum gefst einnig tími til hugrenninga. Vangaveltur um bætta framtíð á nýju ári, markmið og fyrirheit.

Neysluvenjur í hröðu umbúðasamfélagi nútímans kalla á breytt viðhorf sem leiðir að betri umhverfisvitund.  Staðardagskrá 21 er stefnumótandi í þessum efnum hvað rekstur bæjarins varðar og stuðlar að umhverfisvænum neysluvenjum. Það er á ábyrgð hvers og eins að stuðla að betri umgengni og virðingu fyrir umhverfinu í daglegu lífi. Veljum umhverfisvæna kosti og köllum eftir því að vörur séu rétt merktar og upplýsi neytandann um innihald, ágæti og uppruna. Umhvefisfræðsla í samfélaginu hvetur til endurskoðunar á lífstíl og menningu og stuðlar að aukinni sjálfbærni. Nemendur í leik- og grunnskólum hér á Seltjarnarnesi flagga Grænfána Landverndar og er það vel. Stefna sveitarfélaga og heimila í sorpmálum, s.s. notkun á grænni tunnu, grænt bókhald og skil á sorpi á endurvinnslustöðvar er mikilvæg ekki síst þegar endurvinnanlegur blaðaúrgangur telst þriðjungur heimilissorps. Samgöngur og möguleikar í þeim efnum hafa mikil áhrif á lífsgæði í borgum, en hljóðvist vinnur að því að draga úr hávaðamengun frá bílaumferð. Það er góð rækt að ganga eða hjóla til starfa. Ef svo ber við að þú veljir að aka bíl ættir þú að hafa vistakstur að leiðarljósi.

Fólkið sem skipar Neslista leggur áherslu á að Seltjarnarnesbær sé lifandi, aðlaðandi og eftirsóknarverður staður til búsetu á öllum aldri. Neslistinn stendur einnig vörð um Vestursvæðin sem útivistar- og náttúruverndarsvæði. Það þýðir að ekki verði byggt á svæðinu vestan sjónlínu frá Nesstofu að Ráðagerði og einnig að útivistarsvæði milli Gróttu og Bakkatjarnar verði skilgreint sem fólkvangur. Landið okkar góða er einn stór brunnur af auðlindum sem ber að nýta af kostgæfni. Með aðgát, fyrirhyggju og jákvæðum aðgerðum í náttúruvernd má nýta gæði jarðar án þess að vinna henni óbætanlegt tjón.

Gleðilega hátíð.

Brynjúlfur Halldórsson, varabæjarfulltrúi Neslista og fulltrúi í umhverfisnefnd.

Til baka...