xN2014logono122netMeirihlutinn sundraður við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 05.01.2011

Mikið fjaðrafok varð innan raða Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness við seinni umræðu og afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarins fyrir árið 2011 á fundi bæjarstjórnar 6. desember síðastliðinn. Guðmundur Magnússon, forseti bæjarstjórnar og formaður fjárhags- og launanefndar, greiddi atkvæði gegn áætluninni við litla ánægju flokksfélaga sinna. Árni Einarsson bæjarfulltrúi Neslista studdi tillöguna hins vegar. Hið sama gerði Margrét Lind Ólafsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar. Afstaða Guðmundar byggðist fyrst og fremst á andstöðu hans við hækkun útsvarsprósentu úr 12,1% í 12,98%. Lagði hann fram á fundinum tillögu að öðrum leiðum til þess að ná fram meiri sparnaði en tillagan sem fyrir lá gerði ráð fyrir svo komast mætti hjá hækkun útsvarsprósentunnar. Aðrir bæjarfulltrúar töldu hins vegar tillögur hans ekki framkvæmanlegar að sinni eða um væri að ræða tillögur sem væru þegar til staðar í fyrirliggjandi áætlun.

Viðbrögð ýmissa Sjálfstæðismanna við hækkun útsvarsprósentunnar hafa verið mjög hörð. M.a. hefur Baldur, félag ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, mótmælt harðlega og telur hækkunina ógna sérstöðu Seltjarnarnesbæjar sem fyrirmyndar bæjarfélags og ekki vera í takt við þau kosningarloforð sem gefin voru fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Kjósendur flokksins hljóti að krefjast svara frá bæjaryfirvöldum um hvað hafi farið úrskeiðis í fjármálum bæjarins og hvers vegna þessi leið sé farin.

Baldur telur að þeir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn sem séu fylgjandi fyrirhuguðum skattahækkunum séu að bregðast grundvallarhugsjónum Sjálfstæðisflokksins um hóflega skattlagningu og frelsi einstaklingsins.

Ákvörðun Guðmundar Magnússonar er afar sérstök, svo ekki sé meira sagt. Hann, eins og aðrir bæjarfulltrúar, kom að vinnunni við gerð áætlunarinnar á fjölmörum svokölluðum samrásfundum og hafði tækifæri til þess að koma að sínum athugasemdum eins og aðrir. Ákvörðun hans er enn undarlegri þegar hún er sett í samhengi við ferlið, s.s. samþykkt fjárhags- og launanefndar á hækkun útsvarsprósentunnar.

Mánudag 29. nóvember, kl. 8.00 fundaði fjárhags- og launanefnd: Þar var samþykkt tillaga bæjarstjóra um að hækka útsvarsprósentuna. Allir þrír nefndarmenn samþykktu, þar á meðal Guðmundur Magnússon.

Miðvikudag 1. desember, kl. 8.00 fundaði bæjarstjórn (síðasti samráðsfundur) þar sem farið var yfir fjárhagsáætlunina í síðasta sinn. Nokkur atriði samlesin og skoðuð. Niðurstaða: Allir lýsa sig fylgjandi fyrirliggjandi áætlun.

Miðvikudag 1. desember, kl. 17.00 var haldinn bæjarstjórnarfundur. Fjárhagsáætlun lögð fram til kynningar og fyrri umræðu. Guðmundur Magnússon lýsir sig andvígan áætluninni, þ.e. hækkun útsvarsins, og leggur fram blað með tölum um frekari niðurskurð í nokkrum málaflokkum. Engin greinargerð fylgdi og engar útskýringar komu fram á fundinum af hálfu Guðmundar. Hann segist þar muni fara betur yfir málin og leggja fram nánari útfærslu fyrir seinni umræðu. Samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundinum að færa næsta áætlaða bæjarstjórnarfund og halda hann mánudaginn 6. desember. Allir voru samþykkir breytingunni. Ástæða breytingarinnar var sú að fyrir lá að nokkrir bæjarfulltrúar gætu ekki setið fund ef fyrri fundartíma yrði haldið. Talið eðlilegt að bæjarfulltrúar sem unnu að áætlanagerðinni sætu þann fund og tækju þátt í seinni umræðu og afgreiðslu á áætluninni í stað þess að kalla inn varamenn sem ekki eru eins upplýstir um forsöguna og forsendur áætlunarinnar.

Fimmtudagur 2. desember, kl. 8.00. Bæjarstjórn kölluð saman á samráðsfund til þess að fara yfir tölurnar frá Guðmundi. Ekkert nýtt kom þar fram. Engar útfærslur eða skýringar. Ákveðið að halda sig við bæjarstjórnarfundinn 6. desember. Guðmundur lagðist gegn því, en öðrum þótti  ekki tilefni til þess að breyta fundartímanum aftur.

Mánudagur 6. desember, kl. 17.00. Bæjarstjórnarfundur. Seinni umræða og afgreiðsla á fjárhagsáætlun. Guðmundur ítrekar andstöðu sína við hækkun útsvars og leggur fram sem tillögu punktana og tölurnar sem hann var með á bæjarstjórnarfundinum 1. des. Engar skýringar, engin greinargerð fylgdi. Aðspurður sagðist hann ekkert hafa rætt við forstöðumenn þeirra stofnana sem tillögur hans vörðuðu. Ekki heldur forstöðumenn viðkomandi sviða. Hörð umræða varð gegn málatilbúnaði Guðmundar, m.a. af eftirfarandi ástæðum: 1. Tillaga hans var ekki send bæjarfulltrúum fyrir fundinn þannig að hægt væri að fara yfir hana og kynna sér forsendur. 2. Tillaga Guðmundar kom fyrst fram þegar vinnu við áætlanagerðina varlokið. 3. Hann nýtti sér ekki samráðsfundina til þess að koma hugmyndunum á framfæri, heldur kaus að koma þeim fyrst í fjölmiðla.

Svo má vekja sérstaka athygli á því að Guðmundur Magnússon, eins og aðrir bæjarfulltrúar, staðfesti fundargerð fjárhags- og launanefndar sem borin var upp á bæjarstjórnarfundinum. En í henni er m.a. samþykkt nefndarinnar á hækkun útsvarsprósentunni.

Sem sagt: Guðmundur greiðir atkvæði gegn hækkun útsvarsins á bæjarstjórnarfundinu, en greiðir atkvæði með hækkuninni á fundi fjárhags- og launanefndar og meira að segja staðfestir þá ákvörðun nefndarinnar á sama fundinum.  

Árni Einarsson, bæjarfulltrú Neslista, lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum: 

,,Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 er gerð við erfiðar aðstæður. Tekjur bæjarsjóðs fara minnkandi og erfiðleikar steðja að í efnahagsmálum þjóðarinnar og atvinnuleysi kemur illa við bæjarfélagið, fjölskyldur og einstaklinga. Við gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 er kappkostað að mæta samdrætti í tekjum bæjarins og kostnaðarhækkunum með hagræðingu í rekstri svo komast megi hjá skerðingu á grunnþjónustu, s.s. í skólastarfi, æskulýðs- og íþróttastarfi og félagslegri þjónustu. Gjaldskrár í þessum málaflokkum hækka einungis sem nemur verðlagshækkunum og taka flestar þeirra ekki gildi fyrr en 1. júlí á næsta ári. Einnig er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð þeirra.

Bæjarfulltrúar komu allir að vinnslu og gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 og bæjarstjórn hefur setið fjölmarga vinnufundi síðastliðnar vikur þar sem farið hefur verið yfir gögn og forsendur. Á þessa fundi hafa einnig komið forstöðumenn sviða og farið yfir og skýrt einstaka rekstrarliði eftir því sem óskað hefur verið eftir. Þetta er vinnulag sem ég tel til fyrirmyndar og jákvæð tilraun til þess að komast upp úr gamaldags hjólförum í samskiptum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn."

Til baka...