xN2014logono122netVill láta kanna framkvæmd á jafnréttisáætlun 11.04.2011

Á fundi bæjarstjórnar 9. mars síðastliðinn lagði Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista, fram tillögu um að fela jafnréttisnefnd að standa að könnun á framkvæmd jafnréttisáætlunar bæjarins á síðasta kjörtímabili og leggja fyrir bæjarstjórn ekki síðar en 1. september næstkomandi. Í þeirri könnun verði m.a. skoðað hvernig staðið hefur verið að fræðslu um jafnréttismál og hvernig leitast hefur verið við að jafna stöðu karla og kvenna í samræmi við jafnréttisáætlun bæjarins. Einnig hvernig staðið hefur verið að framkvæmd jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum og í tengslum við íþrótta- og æskulýðsstarf á vegum bæjarins. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Í umræðum um tillöguna sagði Árni að mikilvægt væri að áætlanir eins og jafnréttisáætlun væru lifandi verkfæri sem væru leiðbeinandi við stefnumörkun og ákvarðanatöku. Mikilvægt væri að hægt væri að fylgjast með og kanna með jöfnu millibili hvort ákvarðanir væru teknar í samræmi við áætlanir og hvort miðaði í rétta átt, eða jafnvel gagnstæða.

Tilefni tillögunnar er að framundan er hjá jafnréttisnefnd að endurskoða jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir yfirstandandi kjörtímabil (samanber fundargerð nefndarinnar frá 22. febrúar 2011). Nefndin hyggst ljúka þeirri vinnu í maí næstkomandi. Fulltrúi Neslista í jafnréttisnefnd er Oddur Jónas Jónasson.

Til baka...