xN2014logono122netVilja að komið sé til móts við framhaldsskóla- og háskólanema 25.09.2012

Bæjarstjórn Seltjarnarness tekur í sameiginlegri bókun á fundi bæjarstjórnar 26. september 2012 undir ábendingu Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem fram kemur í áskorun þess til eigenda byggðasamlags Strætó um að leita leiða til þess að koma til móts við framhaldsskóla- og háskólanemendur hvað varðar fargjöld með strætisvögnum.
Réttmæt er sú ábending Stúdentaráðs að framhalds-og háskólanemendur þurfa oft að búa fjarri skólum sínum, öfugt við grunnskólanemendur sem eiga kost á skólagöngu í hverfum sínum. Því fylgja óhjákvæmilega ferðalög með tilheyrandi kostnaði sem ungt námsfólk munar um.
Í bókuninni segir einnig að kostnaður við rekstur bifreiða hafi aukist mikið á undanförnum árum og af þeim sökum séu almenningssamgöngur vænlegri kostur fyrir unga námsmenn.
Bæjarstjórn Seltjarnarness bendir auk þess á að allur hvati til aukinnar notkunar almenningssamgangna er liður í áformum sem fram koma í samkomulagi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar sem undirritaður var fyrr á þessu ári (7. maí 2012) um að tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á næstu tíu árum og lækka þannig mögulega samgöngukostnað heimila og samfélagsins og stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Það samkomulag er byggt á viljayfirlýsingu ríkisins frá því í september 2011 um aukið framlag til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Með því að stuðla að aukinni notkun ungmenna á almenningssamgöngum er einnig verið að leggja mikilvægan grunn að varanlegri jákvæðri viðhorfsbreytingu gagnvart notkun almenningssamgangna.

Til baka...