xN2014logono122netNeslistinn 2014 - kynning

 

Árni Einarsson 1. sæti

Árni er 58 ára, með meistaragráði í uppeldis- og menntunarfræði og starfar sem framkvæmdastjóri Fræðslu og forvarna, fræðslu- og upplýsingamiðstöð í forvörnum og heilsueflingu. Árni hefur um árabil starfað að félags- og bæjarmálum á Seltjarnarnesi; var bæjarfulltrúi Neslista kjörtímabilið 2002-2006; varabæjarfulltrúi 2006-2010 og aftur bæjarfulltrúi 2010-2014. Árni hefur m.a. setið í umhverfisnefnd; æskulýðs- og íþróttaráði, skólanefnd, félagsmálaráði, fjárhags- og launanefnd og nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis á Nesinu; verið formaður foreldra- og kennarafélags Mýrarhúsaskóla, setið í foreldraráði, verið formaður handknattleiksdeildar Gróttu og sat í stjórn Bæjarmálafélags Seltjarnarness 1998-2010. Árni er kvæntur Svölu Guðjónsdóttur, bókara. Þau eiga þrjú börn og þrjú barnabörn. Árni leggur áherslu á jöfnuð og jafnrétti, lýðræðislega starfshætti, opna stjórnsýslu, samvinnu og íbúalýðræði.

Hildigunnur Gunnarsdóttir 2. sæti

Hildigunnur er 55 ára; uppeldis- og menntunarfræðingur að mennt; framhaldsskólakennari og náms- og starfsráðgjafi við Kvennaskólann í Reykjavík. Hún hefur verið verkefnisstjóri sjálfsmats og tekið virkan þátt í  innleiðingu nýrra laga um framhaldsskólann við sama skóla. Hún hefur komið mörgum ungmennum á Seltjarnarnesi til manns í tengslum við starf sitt í Kvennaskólanum. Hildigunnur var einn af stofnendum fimleikadeildar Gróttu og fyrsti formaður deildarinnar 1986. Kenndi fimleika í fimmtán ár, lengst af hjá Gróttu. Hún starfaði í mörg ár við félagsmiðstöðvar og var til að mynda forstöðumaður í Tónabæ. Hildigunnur hefur verið virk í foreldrastarfi við Grunnskóla Seltjarnarness. Einnig hefur hún setið sem aðalfulltrúi í skólanefnd og  jafnréttisnefnd og varafulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði. Hildigunnur er gift Ásbirni Jónssyni og eiga þau þrjú börn. Henni er umhugað um fagmennsku í allri stjórnssýslu, mannauðsstjórnun, málefni barna og unglinga, skólaumræðu,  jafnrétti, íþróttir og lýðheilsu.

Brynjúlfur Halldórsson 3. sæti

Brynjúlfur er 40 ára,  matreiðslumeistari og hefur starfað við matreiðslu frá 1992.  Brynjúlfur hefur í dag  umsjón með mötuneyti  Reiknistofu Bankanna. Hann er kvæntur Vigdísi Hallgrímsdóttur verkefnastjóra á skurðlækningasviði LSH og eiga þau tvær dætur. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur Brynjúlfur verið fulltrúi Neslistans í Umhverfisnefnd.  Brynjúlfur var formaður bæjarmálafélagsins frá 2008 – 2010. Áhugamál Brynjúlfs snerta útivist og hreyfingu. Hann stundar m.a.langhlaup,  stangveiði, hjólreiðar og skíði. Brynjúlfur er í stjórn Trimmklúbbs Seltjarnarness.  Vestursvæðin eru honum kær og  mikilvægt að þau verði áfram aðgengileg bæjarbúum sem ósnortin náttúra. Brynjúlfur telur tímabært  Seltjarnarnessbær taki aðstöðu til útivistar og almennings samgangna jafn alvarlega og  nágrannasveitafélögin s.s. með bættum göngu- og hjólastígum.

Ingunn Þorláksdóttir 4. sæti

Ingunn er 52.ára. Hún lauk meistaranámi 1984 í hársnyrtiiðn en starfar nú sem skólaritari í Mýrarhúsaskóla. Ingunn lauk diplomanámi frá HR i leiðtogahæfni 2006 og einnig verið virk í endurmenntun hjá HÍ og HR í stjórnunarfræðum og mannauðsmálum. Hún hefur lokið ýmsum námskeiðum í forystufræðslu á vegum BSRB. Ingunn starfar jafnframt að verkalýðsmálum; var formaður Starfsmannafélags Seltjarnarness frá 2001- 2013, eða þar til félagið var sameinað Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Hún situr nú í stjórn Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar sem fulltrúi starfsmanna á Seltjarnarnesi. Ingunn hefur setið í stjórn BSRB og nefndum og verið í Framkvæmdanefnd Samflots, sem er samstarfsvettvangur margra stéttarfélaga. Ingunn leggur áherslu á mannauðsmál og starfsmannamál, ekki sís starfsmannaumhverfið á Nesinu. Ingunn á þrjá syni og tvo ömmustráka.

Ragnhildur Ingólfsdóttir 5. sæti

Ragnhildur er 59 ára arkitekt með meistaragráðu í arkitektúr frá Marseille í Frakklandi með áherslu á skipulagsmál. Hún vann í fiskiðnaði, sem ferðatæknir og fararstjóri og á ýmsum arkitektastofum í Frakklandi og Bandaríkjunum með námi. Eftir nám fluttist hún til Bandaríkjanna og vann m.a. á ræðismannsskrifstofu Íslands í Seattle, Washington State og arkitektastofum í Seattle og í San Luis Obispo í Kaliforníu.  Eftir heimkomu vann hún í fjórtán ár á Borgarskipulagi Reykjavíkur, nú umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Hún rekur eigin skipulags- og arkitektastofu í dag. Ragnhildur hefur m.a. starfað í foreldrafélögum grunnskóla Seltjarnarness og verið aðal- og varamaður Neslistans í skipulags- og mannvirkjanefnd. Einnig hefur hún átt sæti eða verið fulltrúi minnihlutans í svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins. Ragnhildur aðhyllist jafnaðarstefnu og vill sérstaklega hlúa að ungum, öldruðum og fötluðu fólki. Hún leggur mikla áherslu á íbúalýðræði og samvinnu í skóla- og skipulagsmálum. Hún leggur einnig ríka áherslu á að vanda eigi til við gerð skipulags og að það sé gert í góðri sátt og samvinnu við íbúa. Skipulagsmál eru mikilvægur málaflokkur sem hefur mikla þýðingu fyrir lífsgæði almennings. Við gerð skipulags sé sérstaklega gert ráð fyrir aðgengi og aðkomu fyrir alla aðila og að umhverfið sé fallegt. Ragnhildur telur hafa skort heildarsýn við skipulag miðsvæðis Seltjarnarness, m.a. bæjarkjarnann Eiðistorg, sem enn og aftur þarf að minna meirihlutann á að þarfnist endurskoðunar svo það verði heilsteypt og aðlaðandi. Einnig sé nauðsynlegt að skoða skipulag Nesvegarins í heild með fegurð og aðgengi fyrir alla að leiðarljósi. 

Helstu áhugamál hennar eru arkitektúr og skipulag, ferðalög, lestur góðra bóka, tónlist, sund, hjólreiðar og skíði.  Eiginmaður Ragnhildar er Guðlaugur Örn Þorsteinsson, rekstrarverkfræðingur og eiga þau 3 börn.

Oddur Jónas Jónasson 6. sæti

Oddur er 36 ára þýðandi, fæddur og uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur en fluttist á Seltjarnarnesið sumarið 2005. Kjörtímabilið 2010-2014 sat Oddur í jafnréttisnefnd sem fulltrúi Neslistans, fyrst sem aðalmaður svo sem varamaður. Veturinn 2012-2013 sat Oddur í starfshópi á vegum Seltjarnarnesbæjar sem vann að tillögum um bætta vistunarmöguleika  fyrir foreldra leikskólabarna á Seltjarnarnesi. Oddur er giftur Elizabeth Holt og eiga þau þrjár dætur. 

Rán Ólafsdóttir 7. sæti

Rán er 22 ára laganemi og er fædd og uppalin á Seltjarnarnesi. Sambýlismaður hennar er Axel Kristinsson og saman eiga þau eina dóttur. Rán hefur mikinn áhuga að gera Seltjarnarnes vænlegri kost fyrir ungt fólk til að setjast að.

Guðbjörg Eva Pálsdóttir 8. sæti

Guðbjörg Eva er 18 ára. Hún er nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík og mun ljúka öðru ári þar í vor (2014). Einnig starfar hún á veitingastaðnum Icelandic Fish and Chips og passar börn fyrir frændfólk sitt. Guðbjörg ólst upp á Nesinu og gekk í Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla. Hún æfði fimleika í fimleikadeild Gróttu og síðar sund með sundfélagi KR og hefur einnig æft Jiujitsu í Mjölni. Hún vill að unga fólkið hafi þann valkost að búa á Nesinu í nálægri framtíð og leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna.

Axel Kristinsson 9. sæti

Axel Kristinsson er 25 ára og starfar sem yfirþjálfari hjá Mjölni. Hann hefur lokið BS gráðu í umhverfis- og byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann er fæddur og uppalinn á Seltjarnarnesi. Sambýliskona hans er Rán Ólafsdóttir og saman eiga þau eina dóttur. 

Halldóra Jóhannesdóttir Sanco 10. sæti

Halldóra er 40 ára og hefur búið á Seltjarnarnesi frá árinu 2000. Hún er gift Pétri Péturssyni og saman eiga þau tvö börn. Halldóra starfar sem þroskaþjálfi í Fellaskóla en auk þess er hún varformaður Þroskaþjálfafélags Íslands. Málefni fatlað fólks eru henni hugleikin og vill hún sjá samfélag fyrir alla.

Björgvin Hólmgeirsson 11. sæti

Björgvin er 26 ára menntaður íþróttafræðingur úr Háskólanum í Reykjavík. Hann er kennari í Fellaskóla og stundar handknattleik af miklum eldmóð. Í dag spilar hann með uppeldisfélagi sínu, ÍR. Hann hefur þar áður spilað í Þýskalandi sem atvinnumaður. Hann hefur búið á Seltjarnarnesi síðan 2012 ásamt kærustu og nýfæddu barni. Málefni Björgvins eru helst íþróttir og tómstundir.

Jens Andrésson 13. sæti

Jens er 62 ára vélfræðingur, Hefur starfað sem öryggisfulltrúi hjá Elkem Ísland Grundartanga síðan 2007. Var þar á undan formaður SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu frá mars 1996 til mars 2006. Jens hefur setið í stjórn Veitustofnana Seltjarnarness sem aðalmaður og áheyrendafulltrúi sl. þrjú kjörtímabil. Verið í stjórn Bæjarmálafélags Seltjarnarness frá árinu 2000. Hann er kvæntur Kristínu Þorsteinsdóttur starfsmanni hjá Félagsþjónustu Seltjarnarnessbæjar og eru þau hjónin ein af frumbýlingunum í Grænumýrinni.

Kristín Ólafsdóttir 14. sæti

Kristín er 56 ára sérfræðingur við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ og dósent við HÍ. Hún hefur verið virk í foreldrastarfi grunnskólanna á Seltjarnarnesi og sat í stjórn fimleikadeildar Ármanns frá hausti 2002-2007 og er nú varaformaður Glímufélagsins Ármanns. Kristín sat í umhverfisnefnd Seltjarnarness frá 2002-2006 og var varamaður í stjórn veitustofnana Seltjarnarness sama tímabil. 2006-2014 var Kristín fulltrúi Neslistans í Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis. Kristín er gift Sigurði Brynjólfssyni prófessor við verkfræðideild HÍ og eiga þau þrjá syni og eitt barnabarn.