xN2014logono122netReglur

1. grein.

Nafn félagsins er Bæjarmálafélag Seltjarnarness. Heimili þess og varnarþing eru á Seltjarnarnesi.

2. grein.
Tilgangur félagsins er að vera vettvangur umræðna og ályktana um bæjarmál á Seltjarnarnesi.

3. grein.
Meginmarkmið félagsins er að bæta mannlíf og umhverfi á Seltjarnarnesi.

4. grein.
Rétt til aðildar eiga íbúar á Seltjarnarnesi, sem samþykkja stefnu þess, og hafa náð 16 ára aldri.

5. grein.
Stjórn félagsins skal skipuð 5 fulltrúum og þremur til vara. Skal hún kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður skal kjörinn sérstaklega. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum og velur úr sínum hópi varaformann, féhirðir, ritara og meðstjórnanda. Stjórnarfundir teljast löglegir séu þeir boðaðir með minnst sólarhrings fyrirvara og meirihluti stjórnar er viðstaddur. Varamenn skal jafnan boða á fund og taka þeir sæti í forföllum aðalmanna og ræður atkvæðafjöldi röð varamanna. Varstjórn hefur málfrelsi og tillögurétt á stjórnarfundum en er eigi heimilt að greiða atkvæði um þau mál sem til afgreiðslu er.

6. grein.
Stjórnin boðar til félagsfunda og skulu þeir boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara. Stjórn er skylt að boða til félagsfunda ef minnst 18 félagsmenn senda um það skriflegt erindi til stjórnar og tilgreina umræðuefni.

7. grein.
Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. mars ár hvert og skal hann boðaður með viku fyrirvara. Fastir liðir aðalfundar skulu vera:

 1. Kosning fundarstjóra og -ritara
 2. Skýrsla stjórnar
 3. Samþykkt ársreiknings
 4. Skýrslur nefnda félagsins
 5. Kosning formanns
 6. Kosning fjögurra meðstjórnenda
 7. Kosning þriggja varamanna
 8. Kosning tveggja endurskoðenda
 9. Kosning í starfsnefndir
 10. Lagabreytingar
 11. Önnur mál

8. grein.
Félagið skal að fengnu samþykki félagsfundar bjóða fram við bæjarstjórnarkosningar á Seltjarnarnesi. Efnt skal til prófkjörs eða kjörnefnd falið að móta tillögu um framboðslista eftir því sem félagsfundur ákveður. Í opnu prófkjöri hafa allir félagsmenn rétt til að greiða atkvæði auk íbúa á kjörskrá. Öllum íbúum Seltjarnarness sem eru á kjörskrá er heimilt að bjóða sig fram enda samþykki þeir stefnu félagsins eins og hún er ákveðin fyrir hverjar kosningar. Prófkjörsnefnd setur reglur um tilhögun prófkjörs hverju sinni svo sem um framboðsfrest og fjölda meðmælenda.

9. grein.
Á aðalfundi eða á almennum fundum skal kjörið í nefndir á vegum félagsins. Skulu nefndarmenn starfa á sviðum nefnda á vegum bæjarins.

10. grein.
Á vegum félagsins skulu reglulega haldnir bæjarmálafundir. Þeir skulu vera opnir öllum bæjarbúum. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum á bæjarmálafundum.

11. grein.
Félaginu verður einungis slitið ef tillaga þess efnis berst stjórn og skal hún þá kynnt félagsmönnum fyrir næsta aðalfund þess. Til þess að slíta félaginu þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða á tveimur fundum og skal sá fyrri þeirra vera aðalfundur. Eigi skal líða skemmri tími en 6 vikur á milli fundanna og eigi lengri en 3 mánuðir.

Samþykkt á aðalfundi 24. mars 1994.