xN2014logono122netLeiðarljós og áherslur Neslistans 2014-2018

 

Æskulýðs- og íþróttamál

 

Leiðarljós: Virkja skapandi frumkvæði ungs fólks til þess að verja frístundum sínum á þroskavænlegan og mannbætandi hátt. Stuðla að jákvæðri sjálfsmynd ungs fólks og örva áhuga þeirra á heilbrigðu og ábyrgu líferni, sem er m.a. lykilatriði í forvörnum. Efla með ungu fólki þá lífssýn að það sé virkir þátttakendur í umhverfi sínu og samfélagi.

Allir geti tekið þátt:

 • Skilgreina formlegt hlutverk bæjarins í íþróttastarfi í samstarfi við áhugamannafélög og setja æskulýðs- og íþróttamálum skýr markmið.
 • Treysta tómstunda- og íþróttastarf í bænum og gera sem flestum börnum og unglingum kleift að stunda íþróttir og annað tómstundastarf. Tryggja jafnt aðgengi beggja kynja að íþróttaaðstöðunni.
 • Hvetja til virkrar og almennrar þátttöku ungmenna í íþróttastarfi, meðal annars með almennri notkun tómstundakorta, og styrkja starf íþróttafélaga gegn brottfalli ungmenna úr íþróttum. Koma umsóknum og afgreiðslu tómstundastyrkja í rafrænt form.
 • Auðvelda börnum af erlendu bergi þátttöku og hvetja þau til félagsstarfs. Kynna þeim sérstaklega þá þjónustu sem í boði er, svo og tilvist tómstundastyrkja.

Fjölbreytni og samstarf:

 • Stuðla að fjölbreytni í íþróttum fyrir alla aldurshópa og félagsstarfi barna og unglinga og efna til samstarfs við samtök og stofnanir í bænum í því skyni. Hugað verði sérstaklega að möguleikum til starfssemi sem nýtir nálægð við hafið.
 • Samhæfa skólastarf, íþróttaiðkun, listnám og tómstundastarf ungs fólks.
 • Styðja vel við bakið á almenningsíþróttum og skapa sem bestar aðstæður til útivistar, hreyfingar og almennrar heilsuræktar í bænum.

Íþróttamiðstöð:

 • Ráðist verði í stækkun og umbætur á íþróttamiðstöðinni til hagsbóta fyrir alla íþróttaiðkendur á Seltjarnarnesi. Sjá skýrslu starfshóp um stækkun og endurbætur.

Ungmennaráð og frumkvæði ungs fólks:

 • Styrkja og efla ungmennaráð Seltjarnarness og tryggja að rödd ungmenna heyrist og sé virt við ákvarðanir sem skipta ungt fólk sérstaklega máli. Miklu skiptir að uppvaxandi kynslóð læri á og þekki leikreglur lýðræðisins á öllum sviðum og ábyrgð og skyldur sem felast því að búa í opnu lýðræðisþjóðfélagi.
 • Stofna nýsköpunar- og verkefnasjóð sem hafi það hlutverk að efla frumkvæði ungs fólks á Seltjarnarnesi og auka fjölbreytni í æskulýðsstarfi.

Selið:

 • Standa vörð um fjölbreytt viðfangsefni Selsins svo hægt sé að bjóða ungum Seltirningum upp á möguleika til tónlistarstarfs, leikstarfsemi, myndlistar, fjölmiðlunar og upplýsingamiðlunar af ýmsu tagi. Starfsemi Selsins verði sérstaklega styrkt til þess að bjóða börnum og unglingum í áhættu upp á félagsstarf og verkefni, meðal annars í samstarfi við skólana, Gróttu og kirkjuna. Áhersla verði lögð á fjölmenningu á vettvangi Selsins. Kannaðir verði möguleikar á samnýtingu og/eða samrekstri Selsins og félagsheimilisins.

Vinnuskóli - nýjar áherslur

 • Starfsemi vinnuskólans verði skilgreind sem sumartengt umhverfisverkefni með áherslu á tengsl sögu, náttúru og umhverfisverndar. Starfsemin flétti saman fræðslu, hagnýt störf og vinnu við skapandi lausnir í náttúruvernd og umhverfismálum.
 • Á vettvangi vinnuskólans fari fram fræðsla í vinnuvernd, grundvallarþáttum vinnumarkaðar og leiðbeiningar varðandi atvinnuumsóknir.
 • List- og verkfærni barna og ungmenna verði sérstaklega nýtt í þágu vinnuskólans.