xN2014logono122net
Kosningar 2010 – fróðleikur

 

225.930 á kjörskrá – 18.772 kjósa í fyrsta sinn

Á kjörskrárstofnum, sem hafa verið unnir vegna sveitarstjórnakosninganna í vor eru 225.930 kjósendur og eru konur heldur fleiri, 113.663, en karlar 112.267.  Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann á skráð lögheimili þremur vikum fyrir kjördag, nú 8. maí.

Kjósendur á kjörskrárstofni eru 9.767 fleiri nú en á kjörskrá í síðustu sveitarstjórnarkosningum eða sem svarar 4,5%. Þeir kjósendur sem nú fá að kjósa í fyrsta sinn til sveitarstjórnar sökum aldurs eru 18.772. Það eru 8,3% af heildarkjósendatölunni. 

 

185 listar í framboði

185 listar eru í framboði til 76 sveitarstjórna í kosningunum 29. maí næstkomandi, en þau voru 79 í kosningunum 2006. Á listunum eiga sæti nærri 2.900 manns, eða ríflega 1,2% kjörgengra.

Flestir framboðslistar eru í Reykjavík, eða átta, sjö í Kópavogi og sex á Akureyri. Á Seltjarnarnesi eru bornir fram 4 listar. Í 54 sveitarfélögum hafa verið lagðir fram fleiri en einn listi og þar verður hlutfallskosning. Óbundnar kosningar verða í 18 sveitarfélögum þar sem enginn listi kom fram. Í óbundnum kosningum eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri.

 

Seltjarnarnes

Á Seltjarnarnesi eru nú 3.272 á kjörskrá; 1.594 karlar og 1.678 konur. Á kjörskrá árið 2006 voru 3.285. Þá var kjörsókn 78,26% sem er hin minnsta sem verið hefur á Seltjarnarnesi í sveitarstjórnarkosningum.

Umfjöllun Fréttablaðsins um kosningarnar á Seltjarnarnesi 17. maí 2010

Fjármálin í forgrunni á Seltjarnarnesi

Í fyrsta sinn í langan tíma virðast peningar vera helsta hitamálið í kosningabaráttunni á Seltjarnarnesi. Bæjarbúar hafa úr fjórum framboðum að velja, fleirum en í undanförnum sex kosningum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð haft firna sterka stöðu á Seltjarnarnesi og verið í meirihluta í bæjarstjórn svo lengi sem elstu menn muna. Í síðustu kosningum fengu sjálfstæðismenn fimm bæjarfulltrúa og bættu þá við sig einum manni frá kosningunum 2002. Neslistinn - bæjarmálafélag Seltjarnarness fékk tvo menn.

Fjórir listar eru í framboði. Sjálfstæðisflokkurinn býður fram sem fyrr en önnur framboð eru Framsókn og óháðir, Neslistinn og Samfylkingin. Undanfarnar fimm kosningar hafa aðrir flokkar og öfl en Sjálfstæðisflokkurinn sameinast um framboð undir merkjum Neslistans.

Slíkt sameiginlegt framboð kom enn til álita nú en eftir að Samfylkingin hafði ákveðið að bjóða fram sér afréðu framsóknarmenn að gera það líka. Síðast gerðist það 1982 að kjósendur á Nesinu höfðu úr svo mörgum framboðum að velja.

Bæjarstjóraskipti urðu á kjörtímabilinu. Jónmundur Guðmarsson lét af embættinu og gerðist framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Við tók Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi flokksins til margra ára. Hún fer fyrir listanum nú og í næstu sætum eru ýmist sitjandi bæjarfulltrúar eða nýliðar.

Hvorugur bæjarfulltrúa Neslistans er í framboði en þar er Árni Einarsson varabæjarfulltrúi í efsta sæti. Margrét Lind Ólafsdóttir er oddviti Samfylkingarinnar og Kristjana Bergsdóttir leiðir lista Framsóknar og óháðra.

Fjármál bæjarins eru í kastljósinu í kosningabaráttunni. Sótt er að Sjálfstæðisflokknum vegna fjármálastjórnar en talsverður halli varð á rekstri bæjarins tvö undangengin ár. Það er nýtt á Seltjarnarnesi þar sem jafnan hefur verið afgangur af rekstrinum.

Hrunið hafði vitaskuld sitt að segja um fjárhagsstöðuna en gagnrýnendur Sjálfstæðismanna segja þá hafa brugðist seint og illa við. Benda þeir á að nágrannasveitarfélögum hafi tekist að laga reksturinn að breyttum aðstæðum. Áhyggjur af fjármálum ná líka inn í raðir dyggra stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins. Samtöl við slíka leiða í ljós að þeir telja flokkinn ekki hafa gripið til nægilegra aðhaldsaðgerða í kjölfar hrunsins. Leggja þeir hart að sínum mönnum að einhenda sér í verkið þegar umboð þeirra verður endurnýjað - eins og það er orðað.

Nokkrum sinnum á undanförnum árum hefur komið til talsverðra deilna á Seltjarnesi vegna skipulagsmála. Hafa þær sett mark sitt á mannlífið í þessu fámenna sveitarfélagi og skilið eftir sig sár. Fátt bendir til að til slíkra deilna komi á næstunni enda skipulag byggingasvæða og stórframkvæmdir ekki í kortunum.

Líkt og víðast hvar annars staðar eru íbúar á Nesinu ekki mjög uppteknir af kosningunum. Ekki enn allavega. Þreyta gagnvart pólitískum málefnum er tilfinnanleg og leiða og reiði gætir hjá fólki.

 

Lögheimili utan Íslands

Að sögn Hagstofunnar eru 2.070 menn með lögheimili annars staðar á Norðurlöndum á kjörskrárstofnum fyrir kosningarnar 29. maí. Ríkisborgarar annarra ríkja á Norðurlöndum búsettir hér og með kosningarrétt eru 1.050 og borgarar annarra ríkja 3.525.

Þessi ríkisfangslönd eru algengust: Pólland 822, Danmörk (þar með taldar Færeyjar og Grænland) 586, Þýskaland 329, Litáen 245, Filippseyjar 232, Bretland 220, Taíland 215, Svíþjóð 211, Noregur 195, Bandaríkin 189, Portúgal 81, Holland 76, Frakkland 72, Víetnam 63, Kína 71, Finnland 58, Spánn 55 og Ítalía 54.

 

Kosningaréttur
Kosningarrétt til sveitarstjórna eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa 18 ára aldri þegar kosning fer fram. Þeir sem hafa flutt lögheimili sitt frá Íslandi samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu en hefðu samkvæmt lögheimilislögum átt rétt til þess að halda lögheimili á Íslandi (námsmenn og fleiri) og fullnægja kosningarréttarskilyrðum að öðru leyti eiga einnig kosningarrétt.

Enn fremur eiga kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar 18 ára og eldri, enda hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt fram á kjördag og aðrir erlendir ríkisborgarar 18 ára og eldri hafi þeir átt lögheimili hér á landi samfellt í fimm ár hið minnsta fram á kjördag.