xN2014logono122netLeiðarljós og áherslur Neslistans 2014-2018

 

Heilsa, velferð og félagsleg þjónusta

 

Leiðarljós: Byggja upp heilbrigt samfélag samábyrgðar og gagnkvæmrar virðingar.

Málefni aldraðra: Sjálstæði og  búseta

 • Málefni aldraðra verði alfarið flutt frá ríki til sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að einn aðili beri ábyrgð á þessum málaflokki.
 • Aldraðir taki þátt í stefnumörkun eigin mála.
 • Öldruðum verði kleift að búa á eigin heimilum meðan heilsa og þrek leyfa. Þjónusta vegna sjálfstæðrar búsetu taki mið af því.
 • Áhersla verði lögð á fjölgun dagvistarrýma og bætta heimaþjónustu.
 • Eldri bæjarbúum standi til boða heilsurækt og sund án endurgjalds.
 • Framfylgt verði áætlunum um byggingu hjúkrunarheimilis hið fyrsta og samþætting þjónustugreina efld. Í tengslum við nýtt hjúkrunarheimili standi öldruðum áfram til boða fjölbreytt tómstundastarf ásamt aukinni upplýsinga- og ráðgjafaþjónustu.
 • Bærinn beiti sér fyrir því að byggðar verði þjónustuíbúðir fyrir aldraða á Seltjarnarnesi og/eða ráðist verði í endurbætur á íbúðum aldraðra við Skólabraut í sama tilgangi.

Málefni fjölskyldna

 • Mótuð verði markviss framkvæmdaáætlun við fjölskyldustefnu þar sem gerð verði grein fyrir því hvernig bæjaryfirvöld ætli með ákvörðunum sínum að koma markvisst til móts við barnafjölskyldur og gera aðstæður sem hagstæðastar fyrir börn og uppalendur þeirra.
 • Fjölskylduráðgjöf sé aðgengileg á Seltjarnarnesi.
 • Auka framboð á félagslegu húsnæði og gera áætlun um reglulega endurskoðun á aðstöðu þeirra sem njóta félagslegrar fjárhagsaðstoðar.
 • Þjónustugjöldum vegna barna sé ávallt stillt í hóf og tekið sérstaklega á málefnum barna sem búa við fátækt.
 • Styðja vel við bakið á atvinnulausum, ekki síst félagslega.

Heilbrigði

 • Seltjarnarnes skapi sér sérstöðu í lýðheilsu, útivist og heilsueflingu. Aðstaða til almenningsíþrótta, útivistar og hreyfingar verði auðvelduð, s.s. með göngu- og hjólastígum.
 • Hvetja til reglubundinnar hreyfingar og heilsuræktar og skapa aðstæður til heilbrigðra lífshátta, meðal annars hvað varðar möguleika til útvistar og líkamsræktar.
 • Sérstaklega verði tekið á vanda vegna ofþyngdar barna. Stofnaður verði starfshópur með þátttöku heilbrigðisyfirvalda, stjórnenda hlutaðeigandi stofnana bæjarins, félagasamtaka og foreldra, sem hafi það hlutverk að móta tillögur til úrbóta. Þær taki meðal annars tillit til möguleika í skólastarfi, íþrótta- og æskulýðsstarfi, skipulagsmálum og almennri heilsuvernd.