Leiðarljós og áherslur Neslistans 2014-2018
Menningarmál
Leiðarljós: Á Seltjarnarnesi sé fjölbreytt menningarlíf til að styrkja bæjarbrag, mannlíf, lífs- og uppeldisskilyrði á Seltjarnarnesi. Menningarlíf á Seltjarnarnesi miði m.a. að því að styrkja sjálfsmynd og ímynd sveitarfélagsins og stuðla að aukinni þekkingu og tengslum við umhverfið og varðveislu menningar- og náttúruminja.
- Efla og styðja frumkvæði og drifkraft unga fólksins í félags- og menningarmálum með því að aðstoða það við skipulagningu og fjármögnun einstakra viðburða og verkefna. Sérstökum félags- og menningarsjóði ungs fólks verði komið á fót í því skyni.
- Efla menningar- og félagsstarf í samstarfi félagasamtaka og menningarstofnana bæjarins með hvatningu og stuðningi og skapa þannig öllum aldurshópum ný tækifæri til þátttöku í félags- og menningarlífi og lífga bæjarbrag.
- Að menningarstarf á grunni sögu og náttúru Seltjarnarness verði eflt með fjölbreytilegum hætti. Að hugmyndin um útisafn verði útfærð og þar með leiðsögn og umhverfistúlkun á ýmsum formum á vettvangi, um umhverfi, sögu, atvinnulíf, landnýtingu og náttúrufar. Miðstöð slíkrar starfsemi verði í Nesi, í tengslum við Fræðasetrið í Gróttu og söfnin í Nesi þar sem nýtt Lækningaminjasafn mun rísa.
- Tryggja möguleika tónlistarskólans og bókasafnsins til sýningarhalds og menningarviðburða af ýmsu tagi.
- Standa við bakið á listafólki á Seltjarnarnesi og vekja eftir föngum athygli á starfi þeirra og verkum.
- Viðurkenningu fyrir útnefningu sem bæjarlistamaður Seltjarnarness fylgi styrkur sem meðal annars nýtist til kynningar á listum og eflingu áhuga Seltirninga á listum og listsköpun.