xN2014logono122netBæjarmálafélag Seltjarnarness stofnað á grunni Nýs afls

Anna Kristín Jónsdóttir

Birt í Morgunblaðinu miðvikudaginn 25. apríl, 1990

Á STOFNFUNDI nýs stjórnmálafélags þeirra er aðild eiga að framboði Nýs afls í komandi sveitarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi var gengið frá framboðslista í framhaldi af prófkjöri Nýsafls 8. apríl sl. Sú breyting varð að Björn Hermannsson, fræðslufulltrúi, tók sæti Önnu Kristínar Jónsdóttur í fjórða sæti en Anna Kristín tók sjöunda sætið sem Björn skipaði samkvæmt úrslitum í prófkjöri sem var bindandi fyrir þrjú efstu sætin.

Tæplega 100 manns sátu stofnfund hins nýja stjórnmálafélags og hlaut það nafnið Bæjarmálafélag Seltjarnarness. Félagið mun þó heyja kosningabaráttuna undir nafni Nýs afls. Formaður til eins árs var kjörinn Stefán Bergmann menntaskólakennari og að sögn Stefáns er það markmið félagsins að vera vettvangur umræðna um bæjarmálefni og að vernda mannlíf og umhverfi Seltjarnarness.

Stefán sagði að Anna Kristín Jónsdóttir, sem skipaði 4. sæti á framboðslista Nýs afls samkvæmt prófkjöri, hefði ekki talið sér fært að taka það sæti á listanum. Björn Hermannsson, sem tekur sæti Önnu Kristínar, hlaut 205 atkvæði í fyrstu sex sætin í prófkjöri Nýs afls. Arnþór Helgason, sem fékk 239 atkvæði í prófkjörinu í sex efstu sætin tekur níunda sæti á listanum. Alls tóku 451 þátt í prófkjörinu en á kjörskrá á Seltjarnarnesi eru 2.944.

Efstu fjórtán sætin á framboðslista Nýs afls skipa: 1. sæti Siv Friðleifsdóttir, 2. sæti Guðrún K. Þorbergsdóttir, 3. sæti Katrín Pálsdóttir, 4. sæti Björn Hermannsson, 5. sæti Sverrir Ólafsson, 6. sæti Páll Á. Jónsson, 7. sæti Anna Kristín Jónsdóttir, 8. sæti Hallgrímur Þ. Magnússon, 9. sæti Arnþór Helgason, 10. sæti Eggert Eggertsson, 11. sæti Sunneva Hafsteinsdóttir, 12. sæti Guðmundur Sigurðsson, 13. sæti Kristín Halldórsdóttir og í 14. sæti er Guðmundur Einarsson.