xN2014logono122netLeiðarljós og áherslur Neslistans 2014-2018

 

Skipulags- og umhverfismál

 

Leiðarljós: Ákvarðanir í skipulags- og umhverfismálum taki mið af sjálfbærri þróun og Seltjarnarnes skipi sér í fremstu röð vistvænna og heilsueflandi samfélaga. Að bærinn okkar verði lifandi, aðlaðandi og eftirsóknarverður staður til búsetu fyrir alla aldurshópa.

Heildarsýn og sátt:

 • Móta heildarsýn, sem höfð verði að leiðarljósi við ákvarðanatöku í skipulags- og umhverfismálum.
 • Aðalskipulag Seltjarnarness verði endurskoðað í upphafi kjörtímabilsins, og átak gert í gerð og endurskoðun deiliskipulags einstakra svæða og hverfa.
 • Tryggja framgang og endurskoðun á Staðardagskrá 21 með sérstakri verkefnisstjórn.
 • Virkja íbúa til þátttöku í skipulagsvinnu á öllum stigum hennar þannig að sem mest sátt skapist.
 • Viðhalda fjölbreytileika byggðar og náttúru við skipulags- og mannvirkjagerð.
 • Aðgengi fatlaðs fólks, barna og aldraðra sé tryggt í manngerðu  umhverfi.

Sjálfbærni, vistvæn skref og umhverfisvernd:

 • Móta aðgerðaráætlun vegna mögulegrar  mengunar við sjó eða á landi. Stuðningur og náið samstarf við Heilbrigðiseftirlitið til þess að fylgjast með mengun í bæjarfélaginu, s.s. við strandlengjuna og hjá stofnunum og fyrirtækjum. Komið verði á verkferlum til þess að bregðast við ábendingum eftirlitsins.
 • Bregðast þarf við og fylgjast vel með nýjum mengunarþáttum svo sem rykmengun, hljóðmengun og ljósmengun. Fylgjast sérstaklega með loftgæðum við helstu umferðargötur.
 • Stuðla að og styrkja heimaræktun og moltugerð.
 • Sorp til urðunar minnki umtalsvert frá því sem nú er.
 • Virkja íbúa til þátttöku í umhirðu og fegrun nánasta umhverfis síns með góðu fordæmi bæjarins.
 • Hvetja íbúa til betri nýtingar á mætvælum og minnka notkun á óendurvinnanlegum efnum. Rekstur bæjarins sé í fararbroddi hvað þetta varðar.

Menning, fræðsla og saga:

 • Virðing sé borin fyrir menningar-, byggingar- og náttúruverðmætum við ákvarðanatöku í skipulags- og umhverfismálum.
 • Vekja áhuga fólks á sögu, umhverfi og skipulagi bæjarins með leiðbeinandi merkingum og fræðslu.
 • Útivistarsvæði, náttúruminjar, menningarminjar og sögustaðir (kennileiti) tengdir saman með fræðslustígum.
 • Fræðsla um náttúru, menningu og sögu Seltjarnarness verði hluti af starfi leik- og grunnskólanna.
 • Fræðasetrið í Gróttu gegni lykilhlutverki í umhverfisfræðslu á Nesinu með skipulegu samstarfi við skóla, skólanefnd, félagasamtök, íbúa, starfsmenn og stofnanir bæjarins.
 • Endurnýjað verði samstarf á breyttum forsendum við menntamálaráðuneytið og læknafélögin um að ljúka uppbyggingu á lækningaminjasafni á Seltjarnarnesi og rekstur þess.

Fólkvangur og friðun:

 • Standa vörð um Vestursvæðin sem útivistar- og náttúruverndarsvæði og áframhaldandi varðveislu þeirra. Ekki verði byggt á svæðinu vestan sjónlínu frá Nesstofu að Ráðagerði.
 • Svæðið milli Gróttu og Bakkatjarnar verði skilgreint sem fólkvangur.
 • Seltjarnarnesbær beiti sér fyrir samstarfi sveitarfélaga við Skerjafjörð um náttúruverndarsvæðið Álftanes-Skerjafjörður í samræmi við samþykkta náttúruverndaráætlun.

Útivist og heilsa:

 • Seltjarnarnes móti heildarstefnu og skapi sér sérstöðu í lýðheilsu, útivist og heilsueflingu og taki mið af lýðheilsumarkmiðum við stefnumörkun og ákvarðanir. Stefnan taki meðal annars til íþrótta og heilusræktar, útivistar og mataræðis. Einnig fræðslu og hvatningar til íbúa um mikilvægi heilbrigðra lífshátta. Útivistarsvæði séu aðgengileg og áhugaverð, meðal annars með merkingum og fróðleik um sögu og náttúru Nessins. Aðstaða til útivistar og hreyfingar verði auðvelduð, s.s. með göngu- og hjólastígum.

Umferðar- og öryggismál:

 • Styðja og styrkja almenningssamgöngur.
 • Gera  heildstætt umferðarskipulag með umbótum við gangbrautir, á gatnamótum og sérstaklega hugað að umferðaröryggi við skólana og á gönguleiðum skólabarna.
 • Umferð hjólreiða- og göngufólks verði auðvelduð með göngu- og hjólastígum.
 • Sérstaklega verði hugað að fegrun Nesvegar, göngu- og hjólaleiðir afmarkaðar og aðkomur inn í  bæinn skilgreindar.
 • Endurskoða skipulag bílastæða við Íþróttamiðstöð í grænu umhverfi.

Einstök svæði:

 • Efla miðbæjarkjarnann sem samfellt og heilsteypt þjónustu- og atvinnusvæði. Skapa þar rými fyrir fjölbreytta verslun og  þjónustu; sérstaklega verði hugað að því að styðja við nýsköpun, sprotafyrirtæki, listasmiðjur og útimarkað. Lyfta þakinu á Eiðistorgi og bæta aðkomu að fyrirtækjum á efri hæðum til þess að skapa betri heild á torginu.
 • Hafnarsvæðið þjóni öryggisþörfum vegna björgunar á sjó og sem sumarhöfn.