xN2014logono122netLeiðarljós og áherslur Neslistans 2014-2018

 

Skóla- og uppeldismál

 

Leiðarljós: Skólar á Seltjarnarnesi séu í fremstu röð hvað varðar fagleg vinnubrögð, þróunarstarf, þjónustu og aðbúnað bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Sérstök áhersla sé lögð á að uppfylla markmið grunnskólalaga um að grunnskólinn leitist við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Að bæjaryfirvöld beiti sér fyrir að börn og ungmenni í sveitarfélaginu búi við sem mest félagslegt og heilsufarslegt öryggi.

Stefnumörkun, samstarf og þróun:

 • Skólar á Seltjarnarnesi verði í fremstu röð, meðal annars með því að laða að skólum bæjarins hæfusta kennara og starfsfólk með því að tryggja þeim laun og starfsaðstæður eins og best gerist í landinu.
 • Skólastefna fyrir Seltjarnarnes verði í stöðugri endurskoðun í samstarfi við foreldra, nemendur og starfsfólk skólanna. Jafnframt verði unnið að framkvæmdaáætlun um hvernig ná skuli markmiðum skólastefnunnar.
 • Stutt verði við innleiðingu nýrrar aðalnámskrár grunnskólans.
 • Umbóta- og þróunarstarf verði byggt á niðurstöðum viðhorfa- og sjálfsmats sem fram fari reglulega meðal foreldra, nemenda og starfsfólks skólanna.
 • Lögð verði áhersla á menntun til sjálfbærni með siðferði, jafnrétti og lýðheilsu að leiðarljósi.
 • Stutt verði við fjölmenningarlega kennslu og umburðarlyndi gagnvart ólíkum trúarbrögðum.
 • Þróunarsjóði grunn- og leikskóla verði skapað svigrúm til sértækra umbóta- og þróunarverkefna.
 • Áhersla sé lögð á samfellu og farsæl skil á milli skólastiga  frá leikskóla til og með framhaldsskóla.

Þjónusta

 • Leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu.
 • Starf skólaskjóls verði styrkt með aukinni kennslu í verkmenntagreinum og virkum tengslum við íþróttir og annað tómstundastarf. Kröfur um menntun starfsmanna og starfsmannastefna Skólaskjóls miðist við að þar sé ávallt boðið upp á metnaðarfullt uppeldisstarf.
 • Fjölbreytt og hollt fæði, samkvæmt markmiðum Manneldisráðs Íslands, standi öllum börnum í leik- og grunnskóla  til boða á lágmarksverði.

Aðstaða og öryggi nemenda

 • Skólalóðir grunnskólanna séu hannaðar með daglega hreyfingu, útiveru og öryggi nemenda í huga. Verkferlar öryggismála séu skýrir og þeim fylgt eftir.

Forvarnir

 • Bæjaryfirvöld, ásamt félagasamtökum,  fylgi þeirri stefnu að neysla tóbaks, áfengis og annarra vímuefna á grunnskólaaldri verði ekki liðin.
 • Bæjarfélagið hafi virka vímuvarnaáætlun og öflugan samráðsvettvang skóla, foreldra, skipuleggjenda æskulýðsstarfs, lögreglu og annarra sem starfa að hagsmunum barna og ungmenna. Styðja starf foreldrafélaga skólanna í vímuvörnum, meðal annars foreldraröltið.
 • Sérstök áhersla verði lögð á ýmiss konar lífsleikniþjálfun nemenda í skólum bæjarins. Áhersla verði lögð á jákvæð samskipti nemenda og skólunum gert kleift að standa vel að gæslu og eftirliti í frímínútum og íþróttahúsi meðal annars til þess að sporna við einelti.
 • Öflug og sýnileg löggæsla í bænum.

Einelti

 • Brugðist verði við einelti sem ofbeldi sem samfélagið þurfi að sameinast um að uppræta og fyrirbyggja. Eineltisáætlun skólanna sé markviss og lögð áhersla á forvarnir með þátttöku alls skólasamfélagsins; nemenda, kennara, foreldra og annarra starfsmanna bæjarins. Stofnað verði til samráðs þessara aðila auk íþróttafélaga, kirkju, æskulýðsfélaga og fleiri til þess að styrkja samfélagslega vitund um mikilvægi forvarna gegn einelti og markvissrar íhlutunar þegar hennar er þörf.

Börn af erlendum uppruna

 • Möguleikar barna af erlendum uppruna til náms/kennslu á eigin móðurmáli verði auknir. Sérstaklega verði hugað að jákvæðri félagslegri aðlögun þeirra í skólum á Seltjarnarnesi með því að virkja eldri nemendur til þátttöku.