xN2014logono122netNeslistinn 2014-2018: Stefna og áherslur

 

Bæjarmálafélag Seltjarnarness hefur boðið fram Neslistann við sveitarstjórnarkosningar frá stofnun félagsins árið 1990 og átt fulltrúa í bæjarstjórn í 24 ár. Tilgangur félagsins er að stilla saman strengi og efla styrk  félagshyggjufólks til áhrifa á bæjarmálin á Seltjarnarnesi.

Neslistinn er vettvangur áhugafólks um velferð, þróun og rekstur Seltjarnarnesbæjar með félagshyggju, jafnrétti, lýðræði, umhverfismál  og opna stjórnsýslu að leiðarljósi og starfar óháð stjórnmálaflokkum á landsvísu. Stefna og málefnaskrá Neslistans og verk fulltrúa hans í bæjarstjórn og nefndum byggir ávallt á þessum grunni. 

Neslistinn 2014-2018 er skipaður fólki með fjölþættan bakgrunn hvað varðar menntun, starfsreynslu og lífsreynslu. Sumir hafa áralanga reynslu af þátttöku í bæjarmálunum á Seltjarnarnesi og hafa starfað á fjölmörgum sviðum bæjarlífsins; aðrir bjóða nú fram krafta sína í fyrsta sinn. Listinn er skipaður átta konum og sex körlum. Yngsti frambjóðandinn er átján ára en sá elsti á sjötugsaldri. Málefnaskrá Neslistans sem lesa má undir tenglunum hér til vinstri er fjölþætt. Þar eru sett fram almenn leiðarljós um rekstur og þjónustu bæjarins og tilgreindar afmarkaðar áherslur í ýmsum málaflokkum.
 

  • Neslistinn vill byggja upp  samfélag og mannlíf á Seltjarnarnesi með félagshyggju, jafnrétti, lýðræði, umhverfisvernd  og opna stjórnsýslu að leiðarljósi.
  • Neslistinn vill halda úti háu þjónustustigi og fjölbreyttu samfélagi á Seltjarnarnesi.
  • Neslistinn vill auðvelda íbúum þátttöku við stefnumörkun og ákvarðanir í málefnum bæjarins og að ákvarðanataka bæjaryfirvalda sé gegnsæ.
  • Neslistinn beitir sér fyrir samstarfi og samstöðu um hagsmuni Seltirninga og kallar eftir gagnkvæmri virðingu þeirra sem sinna stjórnmálum og vill málefnalega umræðu um bæjarmálin.

 

Við vinnum    -    saman